Erlent

12% fall á hlutabréfum í Apple

Nordicphotos/AFP
Verð á hlutabréfum í tæknirisanum Apple féll um 12% við opnun markaða á Wall Street í dag.

Apple hefur undanfarið ár verið verðmætasta fyrirtækið í sögunni. Gagnrýnendur höfðu spáð því að félagið myndi, í fyrsta skipti í níu ár, ekki auka hagnað sinn á milli ársfjórðunga. Sú spá reyndist ekki eiga við rök að styðja en engu að síður féllu hlutabréf fyrirtækisins í verði.

Gengi félagsins var við opnun markaða vestanhafs 451 dalir á hlut. Þegar best lét síðastliðið haust var gengi félagsins 705 dalir á hlut. Gengi í Apple hefur því fallið um tæp 36% á innan við hálfu ári.

Talið er að rekja megi lækkunina til ákvörðunar félagsins að draga úr framleiðslu á Iphone snjallsímanum.

Peter Misek, sérfræðingur hjá Jefferies & Company, segir í viðtali við fréttavef Sky að Apple standi höllum fæti í snjallsímabaráttunni. Aukin eftirspurn sé eftir símum með stærri skjái líkt og Samsung og Nokia selji.

Þrátt fyrir fall á gengi bréfa í Apple var aukning í sölu á Iphone símum og Ipad tölvum á milli ára. Fyrirtækið seldi 47,8 milljónir Iphone-síma og 22,9 milljónir Ipad-tölva.

Tim Cook, framkvæmdastjóri Apple, fagnaði uppgjörinu sem nær til síðasta ársfjórðungs nýliðins árs. Hann segir að fyrirtækið muni halda áfram þróunarvinnu sinni og skapa bestu vörur í heimi.


Tengdar fréttir

Spá hnignun hjá Apple

Tæknirisinn Apple mun á miðvikudag opinbera uppgjör sitt fyrir síðasta ársfjórðung 2012. Margir reikna með því að í fyrsta skipti í níu ár hafi Apple ekki aukið hagnað sinn á milli fjórðunga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×