Sport

Eiginkonan þurfti að biðjast afsökunar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anna Burns Welker og Wes Welker.
Anna Burns Welker og Wes Welker. Mynd/Nordic Photos/Getty
Það kom mörgum á óvart þegar New England Patriots datt úr leik í úrslitakeppni ameríska fótboltans um síðustu helgi og eiginkona eins frægasta leikmanns liðsins tók tapinu ekki alltof vel.

New England Patriots tapaði þá 13-28 fyrir spútnikliði Baltimore Ravens á sunnudaginn þar sem liðið náði ekki að skora stig í seinni hálfleiknum. Wes Welker, aðalútherji liðsins, átti fínan fyrri hálfleik en eins og fleiri í liðinu þá hvarf hann í þeim seinni.

Eiginkona hans Anna Burns Welker fór mikinn á fésbókarsíðu sinni eftir leikinn og reyndi að gera lítið úr aðalhetju Baltimore Ravens liðsins - varnarmanninum Ray Lewis.

„Ég er stolt af eiginmanni mínum og Pats-liðinu. En ef einhverjum leiðist farið þá endilega á Wikipedia-síðuna hans Ray Lewis. Sex börn með fjórum konum. Sýknaður af morðákæru þar sem hann borgaði fjölskyldunni á bak við tjöldin. Vei. Þvílíkur Frægðarhallar leikmaður. Sönn fyrirmynd," skrifaði Anna Burns Welker inn á fésbókarsíðu sína.

Burns Welker sá síðan að sér, eyddi færslunni af síðunni sinni og sendi í framhaldinu frá sér afsökunarbeiðni.

„Ég sé mikið eftir skrifum mínum. Ég lét keppnisskapið og það sem fólk var að skrifa inn á síðuna mína, um liðið sem ég elska, hafa áhrif á mig. Tilfinningarnar báru mig hreinlega ofurliði og ég hugsaði ekki rökrétt. Ég bið Ray Lewis afsökunar sem og alla þá sem skrif mín komu við. Það er mikið afrek að komast í úrslitakeppnina og tímabundin pirringur minn má ekki skyggja á frábæran árangur þessara stórkostlegu liða," sagði í afsökunarbeiðni frá frú Wes Welker.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×