Sport

Öryggismál á X Games tekin til skoðunar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Moore lést af sárum sínum sem hann hlaut eftir þetta stökk á X Games.
Moore lést af sárum sínum sem hann hlaut eftir þetta stökk á X Games. Mynd/AP
Yfirvöld í Colorado í Bandaríkjunum munu fara vel yfir öryggismál áður en gefa leyfi fyrir X Games-leikunum á næsta ári.

Tvö alvarleg slys urðu á leikunum í ár. Caleb Moore, sem keppti í snjósleðaíþróttum, lést af sárum sínum eftir að hafa dottið illa og lent undir eigin snjósleða.

Þá ók mannlaus snjósleði inn í áhorfendahóp eftir að bensíngjöf í honum festist eftir misheppnað stökk.

Fráfall Moore var hið fyrsta í átján ára sögu X Games-leikanna. Yfirvöld í Colorado segja að mikilvægast að tryggja öryggi áhorfenda en þeir hafa svo engin áhrif á hvernig brautir eru hannaðar eða íþróttirnar stundaðar.

X Games er haldið á vegum ESPN-sjónvarpsstöðvarinnar sem segist ætla að taka öryggismál í rækilega endurskoðun.

„Engu að síður verður ávallt ákveðin hætta til staðar þegar að bestu keppendur heims koma saman og keppa," sagði í yfirlýsingu ESPN.

Þess má geta að Halldór Helgason, sem keppir á snjóbretti, missti meðvitund eftir að hafa lent illa á höfðinu eftir stökk á leikunum. Hann var fluttur á sjúkrahús með heilahristing.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×