Man. Utd er í fínni stöðu í rimmu sinni gegn Real Madrid í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu eftir 1-1 jafntefli í Madrid í kvöld. United á síðari leikinn á heimavelli.
Heimamenn byrjuðu leikinn betur og sóttu nokkuð fast að marki Man. Utd. Coentrao komst næst því að skora en De Gea varði stórkostlega frá honum.
Man. Utd átti sínar sóknir og Welbeck kom þeim yfir með skallamarki á 20. mínútu. Hann framlengdi þá hornspyrnu Rooney í netið. Sergio Ramos fær engin verðlaun fyrir varnarleik í horninu.
Real lagði ekki árar í bát og snillingurinn Ronaldo skoraði tíu mínútum síðar. Fékk þá sendingu í teiginn frá Di Maria. Hann er nokkuð frá markinu en skallinn er fastur og hnitmiðaður. Evra í dekkningunni en hann rennur í teignum og nær ekki að snerta Portúgalann.
Real vildi fá víti síðar er Phil Jones stjakaði við Di Maria í teignum. Ekkert dæmt.
Heimamenn sterkari og voru ekki fjarri því að bæta við fyrir hlé. Allt kom þó fyrir ekki og staðan í leikhléi 1-1.
Raphael Varane, varnarmaður Real Madrid, átti líklega að fá rautt spjald snemma í síðari hálfleik er hann virtist brjóta á Patrice Evra sem var að sleppa í gegn. Dómarinn dæmdi ekkert. Afar umdeilt atvik.
Tæpum 20 mínútum fyrir leikslok átti Van Persie að koma United yfir. Hann átti fyrst skot í slána. Nokkrum sekúndum síðar var hann einn á auðum sjó í teignum en hitti boltann illa og Xabi bjargaði rétt áður en boltinn fór inn fyrir línuna.
Eftir sem áður stýrði Real Madrid umferðinni. Liðið skapaði sér nokkuð af færum en de Gea var vandanum vaxinn í markinu.
Lokatölur 1-1 sem hljóta að vera vonbrigði fyrir heimamenn sem áttu aragrúa færa í leiknum.
Fótbolti