Erlent

Daniel Day Lewis getur brotið blað í kvikmyndasögunni

Daniel Day Lewis í hlutverki Abrahams Lincoln.
Daniel Day Lewis í hlutverki Abrahams Lincoln.
Verðlaunaafhendingatímabilið í kvikmyndageiranum nær hámarki í kvöld þegar Óskarsverðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn í Hollywood.

Kvikmyndin Lincoln í leikstjórn Stevens Spielberg er með flestar tilnefningar til Óskarsverðlaunanna í ár eða tólf talsins þar á meðal sem besta myndin ásamt átta öðrum myndum. Mynd Angs Lee, Life of Pi, fær ellefu tilnefningar og myndin Silver Linings Playbook er með sex.

Í flokki bestu leikkona í aðalhlutverki etja kappi elsta og yngsta kona sem tilnefndar hafa verið eða þær Emmanuelle Riva, 85 ára, fyrir leik sinn í Amour og hin níu ára Kvavennsinei Wallis fyrir leik sinn í Beasts of the southern Wild.

Erlendir fjölmiðlar telja að myndin Argo í leikstjórn Bens Affleck sé sigurstranglegust í flokknum besta myndin en Ben á hins vegar ekki möguleika á að vera valinn besti leikstjóri þar sem hann er ekki tilnefndur, en hann hefur verið valinn besti leikstjóri á mörgum helstu verðlaunahátíðum undanfarnar vikur.

Þá er ekki talið að Lincoln hreppi margar gullstyttur þrátt fyrir margar tilnefningar, talið er mjög líklegt að leikarinn Daniel Day Lewis slái Óskarsverðlaunamet í kvöld ef hann hlýtur verðlaun sem besti leikari í aðalhlutverki fyrir leik sinn í myndinni Lincoln en það yrði þá í fyrsta skipti sem leikari hlýtur þau verðlaun í þrisvar sinnum.

Þá bíða eflaust margir eftir að sjá hvernig stjörnurnar koma klæddar til hátíðarinnar og vekur það oft ekki minni athygli hverjir verða sigurvegarar rauða dregilsins en verðlaunaathafnarinnar sjálfrar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×