Innlent

Mátti ekki kyssa Justin Bieber

„Mig langaði að fara að gráta en ég vildi ekki vera grátandi á myndinni því það myndi eyðileggja líf mitt," segir Auður Eva 14 ára aðdáandi Justin Bieber.

Það er óhætt að segja að draumur hafi ræst hjá Hafnfirðingnum á þriðjudaginn þegar hún hitti Justin Bieber fyrir tónleika kappans í London. Auður Eva vann keppni í gegnum aðdáendaklúbb tónlistarmannsins og segist aldrei munu jafna sig á augnablikinu þegar hún leit goðið augum.

Auður Eva var af því tilefni tekin í viðtal í Týndu Kynslóðinni. Þar rifjar hún upp augnablikið þegar hún fékk þau skilaboð að hún hefði borið sigur úr býtum í keppninni.

„Ég kastaði símanum, datt í gólfið og grét í klukkutíma," segir Auður Eva sem segir hápunkti lífsins náð. Hún þurfti þó að bíða í tæpar tvær klukkustundir í röð eftir því að hitta kappann og fékk þau skilaboð frá öryggisvörðum að Bieber mætti ekki kyssa.

„Ég ætlaði að reyna það en það tókst ekki," segir Hafnfirðingurinn hressi sem þurfti að halda aftur af tárunum þegar ljósmynd var tekin af þeim Bieber.

Viðtalið má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. Týnda Kynslóðin er í opinni dagskrá á Stöð 2 í kvöld klukkan 19.45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×