Innlent

Fundu hvítan gúmmíhanska í ítölskum kjötbollum

Hér er mynd af bollunni sem fjölskyldan á Seyðisfirði keypti.
Hér er mynd af bollunni sem fjölskyldan á Seyðisfirði keypti.
Áttræð kona á Seyðisfirði fann tægju úr hvítum gúmmíhanska þegar hún ætlaði að elda ítalskar kjötbollur frá Gæðakokkum í Borgarnesi í lok febrúar.

Fyrirtækið komst í fréttirnar á dögunum eftir að Matvælastofnun gaf út að það hefði ekki verið neitt kjöt í nautabökum sem fyrirtækið framleiddi, auk þess sem það vantaði nautakjöt í ítölsku kjötbollurnar. Það var örfáum dögum eftir að hvíti hanskinn fannst í einni bollu á Seyðisfirði.

Dóttir konunnar var með henni þegar elda átti bollurnar. „Við vorum að fara að setja matinn inn í ofn þegar við tókum eftir því að eitthvað stóð upp úr bollunni," segir óánægði neytandinn og bætir við að hún hafi hringt í fyrirtækið eftir að bróðir hennar kvartaði. Konan segist hafa hringt aftur þar sem fyrirtækið hafi lofað að hringja aftur í bróður hennar en ekki staðið við það.

„Þegar ég hringdi svaraði kona sem sagði að sér þætti mjög leitt. Hún hringdi svo skömmu síðar aftur í mig og sagði mér að kona sem hefði verið nýbyrjuð að vinna þarna hefði verið með hvítan hanska en ekki bláan," segir dóttirin. Spurð hvaða máli litur hanskans hafi skipt svara hún: „Hann átti víst að vera sterkari þessi blái."

Neytandinn segir að sér hafi þótt næstu svör fyrirtækisins undarleg. Þannig var því haldið fram í samtali við hana að það hefði verið kappkostað að hreinsa kjötið almennilega, það er að segja að fjarlægja tægjurnar úr kjötinu.

„Það virðist þó ekki hafa tekist betur en þetta," segir neytandinn en fjölskyldan tók mynd af bollunni sem þau geyma enn inni í frysti ásamt pakkningunni. Hún segir fjölskylduna þó hafa borðað hinar bollurnar, enginn hvítur hanski fannst í þeim.

Spurð hvort þau hafi keypt annan pakka af bollunum hlær konan og svara neitandi. „Mér fannst þetta nú frekar ógeðslegt," útskýrir hún svo.

Þegar haft var samband við Magnús Nielsson, eiganda Gæðakokka á Borgarnesi, sagðist hann ekki vilja tjá sig við fjölmiðla þar sem þeir hefðu hingað til slitið orð hans úr samhengi og komið sjónarmiðum hans með brengluðum hætti á framfæri.

Eins og fram kom í fréttum í lok febrúar lagði framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Vesturlands til að fyrirtækið Gæðakokkar í Borgarnesi yrðu kærðir fyrir brot á matvælalögum.

Þá fordæmdi framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna það harkalega hvernig matvörur væru ranglega merktar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×