Íslenski boltinn

Meistararnir styrkja sig verulega fyrir titilvörnina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kayla Grimsley kom að 26 mörkum Þór/KA síðasta sumar.
Kayla Grimsley kom að 26 mörkum Þór/KA síðasta sumar. Mynd/Anton
Kayla Grimsley, Tahnai Annis og Mateja Zver munu allar leika með Íslandsmeisturum Þór/KA í Pepsi-deild kvenna næsta sumar en þetta kemur fram á heimasíðu Þórsara. Þetta er gríðarlegur liðstyrkur fyrir norðankonur.

Bandarísku stelpurnar Kayla Grimsley og Tahnai Annis voru lykilmenn í meistaraliði Þór/KA 2012 og Mateja Zver var einn allra besti leikmaður deildarinnar þegar hún lék með liðinu frá 2008 til 2011.

„Þetta eru afar góð tíðindi og ljóst að Íslandsmeistararnir mæta sterkir til leiks í sumar enda geta leikmenn liðsins gengið að því sem vísu að andstæðingar þeirra allir munu taka extra mikið á þeim í sumar, allir vilja vinna Íslandsmeistarana, segir í fréttinni á heimasíðu Þórs.

Mateja Zver er 25 ára slóvenskur sóknarmiðjumaður sem hefur skorað 55 mörk í 63 leikjum á fjórum tímabilum sínum í úrvalsdeild kvenna.

Kayla Grimsley er 23 ára sóknarmiðjumaður sem skoraði 5 mörk í 18 leikjum í Pepsi-deildinni síðasta sumar og Tahnai Annis, sem er 24 ára miðjumaður, var með 7 mörk í 18 leikjum. Grimsley lagði upp flest mörk deildarinnar (21) og fékk fyrir það verðlaun Íslenskar Knattspyrnu 2012.

Kayla og Tahnai koma báðar til landsins 20. mars en Mateja Zver kemur mánuði síðar eða um 26. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×