Innlent

Páll Heimisson neitaði sök

Páll Heimisson ásamt lögmanni sínum í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun
Páll Heimisson ásamt lögmanni sínum í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun Mynd/GVA
Páll Heimisson, sem hefur verið ákærður fyrir stórfelld umboðssvik, neitaði sök við fyrirtöku málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Hann er grunaður um að hafa misnotað kreditkort íhaldshóps Norðurlandaráðs, meðal annars í dýrum fataverslunum, skartgripabúðum og á veitingastöðum um allan heim.

Páll mætti ekki við þingfestingu málsins sem fór fram í lok janúar síðastliðinn, vegna þess að hann býr í Rúmeníu þar sem hann stundar nám.

Sérstakur saksóknari gaf út ákæru á hendur honum þann 18. desember síðastliðinn. Fréttablaðið fjallaði um hana um miðjan mánuðinn en þar segir meðal annars að Páll hafi notað kortið í sextán löndum frá janúar 2009 til mars 2011. Hann ferðaðist um þrettán Evrópulönd á tímabilinu en einnig fór hann til Líbanon, New York í Bandaríkjunum og Peking, höfuðborgar Kína.

Upphæðin sem hann er talinn hafa svikið út eru um nítján milljónir króna, þar af voru tólf milljónir teknar út í bönkum og hraðbönkum. Í ákærunni segir að árið 2011 virðist hann hafa hægt á sér, því þá sé notkunin á kortinu ekki nema tæpar 233 þúsund krónur á þriggja mánaða tímabili. Það ár sé ekki um neinar óheimilar úttektir á reiðufé að ræða.

Kreditkortið, sem Páll hafði afnot af, var í eigu Sjálfstæðisflokksins.Vísir
Páll er þrítugur, fæddur árið 1982. Hann hafði verið virkur í ungliðastarfi Sjálfstæðisflokksins og var alþjóðafulltrúi flokksins þegar hann tók við sem ritari íhaldshópsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×