Sport

Klüft fer á næstu Ólympíuleika

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carolina Klüft.
Carolina Klüft. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sænska frjálsíþróttagoðsögnin Carolina Klüft er á leiðinni á næstu Ólympíuleika þrátt fyrir að hún sé búin að setja frjálsíþróttaskóna upp á hillu. Klüft hefur tekið að sér að vinna við Vetrarólympíuleikana í Sotji í Rússlandi 2014 fyrir Viasat-sjónvarpsstöðina.

Klüft skellir sér strax út í djúpu laugina því hún verður gestgjafi og umsjónarmaður Ólympíuþáttar á Viasat-sjónvarpsstöðinni. Á meðan leikunum stendur fær hún til sín gesti til að ræða og fara yfir það sem er í gangi á leikunum.

„Ég hef tekið að mér krefjandi verkefni og ég forvitin og mjög spennt," sagði hin þrítuga Carolina Klüft við Expressen en hún lagði skóna á hilluna á síðasta ári. Hún átti frábæran feril, varð Ólympíumeistari og tapaði aldrei í þraut.

„Ég elska Ólympíuleikana og það skiptir ekki máli hvort það séu vetrar eða sumarleikarnir," sagði Klüft en er þetta ekki of stórt stökk.

„Þegar ég var lítil þá lék ég þáttarstjórnanda fyrir framan spegilinn. Ég er því klár í slaginn," sagði Klüft í léttum tón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×