Sport

Ásdís nokkuð frá sínu besta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Ásdís Hjálmsdóttir hafnaði í sjöunda sæti á sterku móti sem fór fram á Spáni í morgun. Hún kastaði lengst 57,63 m.

Margir sterkir kastarar tóku þátt í mótinu, eins og Linda Stahl frá Þýskalandi sem fékk brons á Ólympíuleikunum í sumar, Evrópumeistarinn Vira Rebryk frá Úkraínu og heimsmeistarinn Maria Abakumova frá Rússlandi.

Abakumova bar sigur úr býtum á mótinu með frábæru kasti upp á 69,34 m en það hefði dugað til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í sumar. Önnur varð Rebryk með 63,42 m og þriðja Stahl með 61,97 m.

Ásdís gerði ógilt í fyrstu tilraun en alls var kastað sex sinnum. Hún náði sínu lengsta kasti í sjöttu og lokatilraun sinni. Íslandsmet hennar er 62,77 m og var sett í London í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×