Erlent

Fyrstu sönnunargögn um að Mars hafi verið lífvænlegur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sjálfsmynd sem Curiosity tók á John Klein svæðinu þar sem hann undirbjó fyrstu borunina á annarri reikistjörnu. Sjá má merki um fyrstu prófanir borsins neðarlega vinstra megin. Á þessum stað hefur Curiosity fundið sönnunargögn þess efnis að Mars hafi eitt sinn líkega verið lífvænlegur.
Sjálfsmynd sem Curiosity tók á John Klein svæðinu þar sem hann undirbjó fyrstu borunina á annarri reikistjörnu. Sjá má merki um fyrstu prófanir borsins neðarlega vinstra megin. Á þessum stað hefur Curiosity fundið sönnunargögn þess efnis að Mars hafi eitt sinn líkega verið lífvænlegur. Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS
Fyrstu niðurstöður rannsókna vísindamanna á borsýnunum sem geimjeppinn Curiosity safnaði á plánetunni Mars voru kynntar í gær.

Efnafræðileg, steindafræðileg og jarðmyndunarleg sönnunargögn benda til þess að jeppinn standi á fornum vatnsbotni á Mars. Á vatnsbotninum hafa örverur sennilega getað þrifist en um er að ræða fyrstu sönnunargögn þess efnis að Mars hafi verið lífvænlegur.

Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, hefur skrifað ítarlega umfjöllun um tíðindin á Stjörnufræðivefinn.

„Setbergið sem Curiosty boraði í á John Klein svæðinu í Yellowknife flóa var eitt sinn botn á stöðuvatni. Það inniheldur mikið af leirsteindum, t.d. smektít sem myndast í vatni við hlutlaust sýrustig. Þar eru einnig neikvætt hlaðnar og mixuð efni sem veita nauðsynlega orkuuppsrettu. Bergið í Gale gígnum sýnir að umhverfið þar var mun þægilegra en það salta, súra og ólífvænlega umhverfi sem Spirit og Opportunity hafa kannað," skrifar Sævar.

Hann bendir á að þessi stórmerka uppgötvun sé ekki aðeins Curiosity að þakka og því sé mikilvægt að halda til haga.

„Sú ákvörðun að lenda jeppanum í Gale gígnum og aka að þeim stað sem hann er nú á byggir á upplýsingum sem geimför á braut um Mars hafa aflað á undanförnum ár. Ferðalög Curiosity eru valin út frá því sem þessi geimför sjá."

Sævar segir að um mestu uppgötvun Curiosity til þessa sé að ræða en þó sé markmiðum leiðangursins ekki fyllilega náð: Að finna út hvort Mars sé eða hafi verið lífvænlegur.

„Þetta er þó mikilvægt skref í rétta átt. Menn eiga mikið verk fyrir höndum við að skilja hve lengi umhverfið var lífvænlegt. Hver eru tengslin milli stöðuvatnasetsins á John Klein svæðinu og setlaganna í Sharpfjalli?"

Nánar hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×