Handbolti

Algjörlega til skammar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kristín Harpa Hálfdánardóttir, íþróttastjóri Rúv, ýtir hér Daníel Rúnarssyni til hliðar eftir bikarúrslitaleik karla í gær.
Kristín Harpa Hálfdánardóttir, íþróttastjóri Rúv, ýtir hér Daníel Rúnarssyni til hliðar eftir bikarúrslitaleik karla í gær. Mynd/Hilmar Þór Guðmundsson/sport.is
Rakel Ósk Sigurðardóttir, formaður Blaðaljósmyndarafélags Íslands, gerir athugasemdir við vinnubrögð Rúv í tengslum við leiki helgarinnar í bikarkeppninni í handbolta.

Daníel Rúnarssyni, ljósmyndara Vísis og Fréttablaðsins, var vísað frá af starfsmanni Rúv þegar hann ætlaði að mynda fögnuð leikmanna ÍR, sem varð bikarmeistari karla. Eins og sést á meðfylgjandi myndum frá sport.is var Daníel beinlínis ýtt af vellinum með handafli.

„Það er algjörlega fáránlegt að það sé gengið í skrokk á fólki," sagði Rakel við Vísi. „Það var ekki talað við hann heldur var honum einfaldlega ýtt út af vellinum." Þar vísar hún til þess þegar Kristín Harpa Hálfdánardóttir, íþróttastjóri Rúv, ýtti Daníel Rúnarssyni, ljósmyndara Fréttablaðsins, til hliðar eftir bikarúrslitaleik karla í gær.

Fjallað var um málið um helgina og Rúv birti svo frétt á heimasíðu sinni þar sem fullyrt er að engum hafi verið bannað að mynda á leikjum helgarinnar. Hins vegar voru settar reglur um aðgang fjölmiðla og segir að viðkomandi ljósmyndari hafi farið „inn á svæði sem ekki var ætlað til ljósmyndatöku og þurfti því að koma honum á svæði þar sem hann var ekki fyrir sjónvarpsmyndavélum."

„Mér finnst að Rúv eigi ekki að getað eignað sér viburði. Það hefði þurft að senda út tilkynningu um þetta fyrirfram að það megi ekki mynda viðburðinn. Ljósmyndararnir sátu allan leikinn og voru svo skyndilega stöðvaðir. Mér finnst þetta algjörlega til skammar," segir Rakel.

Fulltrúar Blaðaljósmyndarafélagsins munu funda með formanni Blaðamannafélags Íslands á morgun og er þá von á yfirlýsingu.

Árni Sæberg, ljósmyndari Morgunblaðsins og mbl.is, segir að afleiðingar þessa að hafi bitnað á gæðum mynda þeirra sem störfuðu á leiknum. „Við þurftum hér um bil að biðja menn að leika fagnaðarlætin aftur af því að við náum engum myndum nema af bakhlutanum á einhverjum áhorfendum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×