Innlent

Aldrei séð jafn langa einangrun fanga nema í Guantanomo Bay

Hjörtur Hjartarson skrifar
Gísli H. Guðjónsson hefur ekki vitað um aðra eins einangrun nema í Guantanamo Bay.
Gísli H. Guðjónsson hefur ekki vitað um aðra eins einangrun nema í Guantanamo Bay.
Veigamiklar ástæður eru fyrir því að Guðmundar- og Geirfinnsmálið verði tekin upp á ný í ljósi þess að það þykir hafið yfir allan skynsamlegan vafa að framburður sakborninga var óáreiðanlegur. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem kynnt var í innanríkisráðuneytinu í dag.

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra skipaði starfshópinn í október 2011 og var honum falið að fara yfir rannsókn málsins í heild sinni, en þó sérstaklega að þeim þætti sem snéru að framkvæmd hennar, á sínum tíma. Í skýrslunni sem telur nærri 500 blaðsíður, kemur fram að sakamálarannsókn hófst ekki fyrr en tveimur árum eftir hvarf Guðmundar, og einu ári eftir hvarf Geirfinns. Þá hafi tilgáta um ákveðna atburðarrás í Geirfinnsmálinu verið komin fram hjá rannsóknarlögreglunni í Reykjavík áður en en hin sakfelldu voru fyrst yfirheyrð.

„Varðandi rannsóknina þá komumst við að þeirri niðurstöðu að hún hafi verið of einstrengingsleg og að lögreglan hafi ekki veitt eftirtekt þáttum sem gáfu möguleikann á að því að sakborningur væru saklausir," sagði Soffía Sigurðardóttir, formaður starfshópsins.

Helstu niðurstöður starfshópsins eru þær að það sé hafið yfir allan skynsamlegan vafa að framburður sakborninga hafi verið óáreiðanlegur eða falskur. Gísli H. Guðjónsson, réttarsálfræðingur vann með starfshópnum en hann er mikilsvirtur í sínu fagi og hefur unnið að mörg hundruð málum þar sem falskar játningar eru til umfjöllunar. Hann segir Guðmundar- og Geirfinnsmálið algjörlega einstakt.

„En einangrunin er dálítið sláandi. Ég hef ekki unnið að neinu máli, neins staðar í heimi, þar sem það hefur verið svona mikið um einangrun á sakborningum eins og þessum tveimur málum. Það er mjög óvenjuleg, nema í hryðjuverkamálum, að það sé lengra en 1-2 vikur. Þegar við lítum á vikur, mánuði eða ár, þá veit ég ekki nein önnur mál nema í Guantanomo Bay," sagði Gísli H. Guðjónsson, réttarsálfræðingur á fundinum.

Ekki er með öllu ljóst hvert framhald málsins verður en þrjár leiðir koma til greina að sögn Ögmundar Jónasson, innanríkisráðherra.

„Nú mun ríkissaksóknari gaumgæfa málið. Skýrslunni hefur verið komið til embættisins. Síðan er það sakborninganna að ákveða hvað þeir vilja gera í málinu og þá, hugsanlega leita eftir fjárstuðningi sem nefndin telur eðlilegt að yrði inntur af hendi. Og ef að ekkert af þessu komi til þykir nefndinni eðlilegt að alþingi íhugi að leggja fram lagafrumvarp um upptöku málsins. En hvað sem framhaldið verður þá er þessi niðurstaða, hún er mikilvægur áfangi í lífi þeirra sem hlut eiga að máli og hugsanlega einnig í okkar réttarsögu," sagði Ögmundur.

Ef ríkissaksóknari kýs að fara fram á endurupptöku málsins munu einungis mál þeirra sakborninga sem eru á lífi verða tekin fyrir. Sævar Ciesielski og Tryggvi Rúnar Leifsson eru látnir og samkvæmt lögunum í dag er ekki hægt að taka upp mál látinna einstaklinga.

Sævar lést fyrir fjórum árum og Tryggvi fyrir tveimur. Báðir héldu þeir fram sakleysi sínu til dauðadags og barðist Sævar lengi fyrir endurupptöku málsins. Við endurupptöku gefur ríkissaksóknari út nýja ákæru og fer um leið fram á sýknudóm. Í lögunum í dag kemur fram að ekki sé hægt að fara fram á endurupptöku mála látinna einstaklinga, hvort heldur sem ríkissaksóknari fer fram á endurupptöku eða aðstandandi.

Hafþór Sævarsson, sonur Sævars Ciesielski, segir það vissulega vonbrigði. Hann fagnar engu að síður niðurstöðu starfshópsins.

„Það er hægt að semja ný lög einnig, ég myndi þrýsta á það ef ég tel það nauðsynlegt. En ég veit ekkert að svo stöddu, ég ætla að fara rækilega yfir það. Faðir minn lifði fyrir að hreinsa nafn sitt af þessum málum og skýrsla starfshópsins gerir það," sagði Hafþór.

Ögmundur Jónasson, innanríksráðherra vonast til að farsæl lausn finnist á máli þeirra Sævars og Tryggva.

„Það eru ákveðnir erfiðleikar á ferðinni og þá hljótum við að horfa til lagafrumvarpsins líka en ég ætla ekkert að gefa mér neina niðurstöðu hvað þetta snertir. Þetta er nokkuð sem þarf einfaldlega að gaumgæfa og allir hlutaðeigendur munu gera," sagði Ögmundur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×