Sport

Emilía Rós vann brons í Zagreb

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenski hópurinn í Króatíu.
Íslenski hópurinn í Króatíu. Mynd/Skautsamband Íslands
Skautarar úr landsliðshópi Skautasambands Íslands stóðu sig vel á ISU-mótum Alþjóða skautasambandsins um liðna helgi í Króatíu og Lúxemborg. Emilía Rós Ómarsdóttir úr Skautafélagi Akureyrar stóð sig frábærlega og vann til bronsverðlauna í Zagreb. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Skautasambandi Íslands.

Emilía Rós Ómarsdóttir úr SA vann til bronsverðlauna í flokki 12 ára og yngri A (Basic Novice A) á Mladost Trophy sem fram fór í Zagreb í Króatíu. Emilía Rós varð þriðja af fjórtán keppendum. Þetta er í fyrsta skipti sem íslenskur keppandi vinnur til verðlauna á ISU-móti Alþjóða skautasambandsins og má örugglega búast við frekari afrekum frá þessum efnilega skautara í framtíðinni.

Í Króatíu kepptu þrjár aðrar stúlkur frá SA. Í stúlknaflokki A (Advanced Novice) þær Elísabet Ingibjörg Sævarsdóttir sem varð í 11. sæti og Sara Júlía Baldvinsdóttir í 21. sæti af 24 keppendum. Hrafnhildur Ósk Birgisdóttir varð í 11. sæti af 21 keppanda í Unglingaflokki A (Junior Ladies).

Sex keppendur úr landsliðshópi ÍSS tóku þátt í Coupe du Printemps sem fram fór í Lúxemborg um liðna helgi og náðu einnig ágætis árangri.

Í Stúlknaflokki A (Advanced Novice) varð Kristín Valdís Örnólfsdóttir í 15. sæti og Þuríður Björg Björgvinsdóttir úr Birninum í 22. sæti af 26 keppendum.

Í Unglingaflokki A (Junior Laides) luku 27 stúlkur keppni. Vala Rún B. Magnúsdóttir úr SR varð í 17. sæti, Júlía Grétarsdóttir úr Birninum í 20. sæti, Agnes Dís Brynjarsdóttir úr Birninum í 21. sæti og Nadia Margrét Jamchi úr SR í 24. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×