Innlent

Fallhlífarnar opnuðust ekki

T.K. Hayes
T.K. Hayes
T.K. Hayes, annar af eigendum Skydive City, staðfesti við fréttastofu síðdegis að aðalfallhlífar Íslendinganna tveggja sem létust í Flórída í gær hefðu ekki opnast.

Hayes var einn þeirra sem var á vettvangi með lögreglunni þegar hún skoðaði staðinn þar sem Íslendingarnir hröpuðu til jarðar. Samkvæmt honum létust þeir báðir við lendinguna.

Í búnaði fallhlífastökkvaranna voru varafallhlífar sem eiga að opnast þegar að stökkvararnir eru komnir niður í ákveðna hæð. Að sögn Hayes opnuðust fallhlífarnar en það var um seinan.

Án fordæma

Annar Íslendinganna sem lést var reyndur í faginu. Hinn hafði stokkið sjö sinnum og virtist vera komin með góð tök á listinni.

Hayes hefur fengið símtöl hvaðanæva úr heiminum í dag vegna slyssins. Það vekur mikla athygli í heimi fallhlífastökkvara enda er það án fordæma að hans sögn. Að tveir fallhlífastökkvarar látist í sama stökki hafi hingað til verið óþekkt. Einnig sé mun algengara að reyndir fallhlífastökkvarar eða leiðbeinendur láti lífið en byrjendur.

Vindur hafði ekki áhrif

Hayes segir aðstæður þegar mennirnir stukku ekki orsök slyssins. Þótt aðeins hafi blásið hafi vindurinn ekki haft áhrif. Allajafna sé stokkið í aðstæðum sem þessum.

Hann segist hafa verið í sambandi við þá tuttugu Íslendinga sem voru með mönnunum tveimur í hópferðinni. Þeir séu skiljanlega harmi slegnir. Hayes segir þá halda sig á hóteli sínu og hann reyni að aðstoða þá eins og hann geti.


Tengdar fréttir

Voru í sínu þriðja stökki

Lögregluyfirvöld hafa staðfest að rannsókn sé hafin á því hvað fór úrskeiðis þegar tveir Íslendingar létu lífið í fallhlífarstökki í Flórída í gærkvöldi.

Mikill vindur þegar mennirnir stukku

Eic Hildebrand, leiðbeinandi hjá Skydive City, segir töluverðan vind hafa verið þegar tveir Íslendingar létu lífið í fallhlífastökki vestanhafs í gær. Hann minnir á að fallhlífastökk sé ekki áhættulaust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×