Erlent

Aðeins fundur með Bieber getur komið í veg fyrir morð

Justin Bieber
Justin Bieber Nordicphotos/AFP
Dæmdur morðingi í Bandaríkjunum, sem lagði á ráðin um tilraun til að ráða söngvarann Justin Bieber af dögum, segist þurfa að ræða við söngvarann. Annars sé líf hans áfram í hættu.

Dana Martin situr af sér lífstíðardóm fyrir að hafa nauðgað og myrt 15 ára stúlku vestanhafs. Í desember greindu fjölmiðlar frá fyrirhugaðri morðtilraun á hendur Bieber auk þess sem skera átti undan honum.

Martin fól fyrrum fangelsisfélaga sínum verkefnið. Ráðast átti á Bieber og lífvörð hans á tónleikum í Madison Square Garden í New York borg. Upp komst um plönin þegar þriðji maður, aðdáandi Bieber, leysti frá skjóðunni.

„Ástæðan er ekki aðeins sú að ég vilji komast í sviðsljósið. Hann (innsk: Bieber) breyttist og það reytti mig til reiði," segir Martin við bandaríska miðilinn Details.

Martin segir Bieber ekki lengur hinn hógværa strák sem hann eitt sinn var og það sé hann ósáttur við. Hin ástæðan er vissulega sú að skrá nafn sitt í sögubækurnar.

Þrátt fyrir að upp hafi komist um morðtilræðið í lok síðasta árs segir Martin hættu enn steðja að Bieber. Það eina sem geti stöðvað áætlanir Martin sé fundur með Bieber sjálfum þar sem þeir ræði málin.

Nánar á vef Huffington Post.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×