Fótbolti

Umfjöllun: Slóvenía - Ísland 1-2 | Tvö glæsimörk hjá Gylfa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Ljubljana skrifar
Mynd/AP
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði bæði mörkin í stórglæsilegum útisigri Íslands á Slóveníu í undankeppni HM 2014.

Ísland átti þó erfitt uppdráttar í fyrri hálfleiks og voru undir, 1-0, að honum loknum. Milivoje Novakovic skoraði markið eftir hik í varnarleik Íslands.

Í seinni hálfleik var komið að þætti Gylfa. Hann jafnaði metin með stórglæsilegu marki beint úr aukaspyrnu og innsiglaði svo frábæran sigur með skoti úr vítateignum eftir frábæran undirbúning varamannsins Eiðs Smára Guðjohnsen.

Slóvenar sóttu stíft á lokamínútunum en náðu ekki að jafna metin. Strákarnir fögnuðu því afar sætum sigri og sínum öðrum útileik í röð í riðlinum.

Leikurinn byrjaði rólega og bæði lið varkár. Óvissa hafði verið fyrir leik um hvaða leikkerfi Slóvenar myndu spila og því voru engar áhættur teknar fyrstu mínúturnar.

Það voru þó örlítil teikn um bresti í varnarleik Íslands. Fyrsta snertingin sveik stundum en menn náðu þó að bjarga sér jafnóðum.

Gylfi Þór fékk fyrsta almennilega færi Íslands þegar hann kom sér í góða skotstöðu eftir að hafa leikið laglega á varnarmann Slóvena. En Gylfi hitti ekki markið.

Fyrirfram var reiknað með því að varnarleikurinn yrði helsti veikleiki Slóvena en það var ekki að sjá á leik liðsins í fyrri hálfleik. Leikmenn voru fljótir að koma sér í stöðu þegar Ísland fékk boltann og loka öllum svæðum.

En eftir rúmlega hálftímaleik komst Ísland í skyndisókn. Birkir Bjarnason spretti upp hægri kantinn en í stað þess að senda fór hann inn í þvögu varnarmanna og tapaði boltanum.

Slóvenar brunuðu í sóknina um leið. Boltinn barst inn í teig og á Novakovic eftir að Sölvi Geir klikkaði á hreinsuninni. Novakovic afgreiddi knöttinn snyrtilega eftir þetta.

Slóvenum óx ásmegin eftir þetta og juku pressuna ef eitthvað var. Íslendingar náðu sér engan veginn á strik og framherjarnir Kolbeinn og Alfreð komu varla við boltann. Breytinga var þörf og var ákveðið að fórna Alfreð fyrir Jóhann Berg í hálfleik. Gylfi fór því í sóknina en það hafði afskaplega lítið komið úr hans spili á vinstri kantinum.

Fyrstu mínúturnar í seinni hálfleik benti fátt til þess asð eitthvað betra væri í vændum. En þá náði Birkir Bjarnason að fiska aukaspyrnu rétt utan vítateigs. Allir Íslendingar vissu hvað væri í vændum og Gylfi Þór olli ekki vonbrigðum. Hann þrumaði knettinum í slána og inn.

Slóvenar voru vankaðir. Og þegatr Aron Einar náði að senda boltann inn fyrir varnarlínu heimamanna komst Kolbeinn einn gegn Handanovic. Hann hafði tíma en fór illa að ráði sínu. Handanovic varði.

Heimamenn komust aftur inn í leikinn og ógnuðu tvívegis með markskoti. Í bæði skiptin var Hannes vel á verði og sýndi enn og aftur að hann á heima í sterkari deild en þeirri íslensku.

Eiður Smári kom svo inn á, stundarfjórðungi fyrir leik og seinna en áætlað var. Markið breytti leiknum og líka áætlunum Lagerbäck. En Eiður var mjög fljótur að láta til sín taka.

Hann fékk boltann vinstra meginn við vítateiginn, fór fram hjá varnarmanni og kom boltanum á Gylfa. Hann sneri og afgreiddi knöttinn í netið með einföldu skoti. Glæsilegt mark og Ísland komið yfir.

Eftir þetta lá mikið á íslenska liðinu. En strákarnir stóðu sína plikt, héldu rónni og sigldu sigrinum í heimahöfn. Sannarlega frábær stund fyrir íslenskan fótbolta.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×