Innlent

Engir ytri áverkar á líkama barnsins

Hjörtur Hjartarson skrifar
Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 27.mars, grunaður um að hafa orðið valdur að dauða fimm mánaða gamallar dóttur sinnar. Rannsókn réttarlæknis bendir til að dánarorsök hafi verið blæðingar í heila.

Stúlkan var flutt með sjúkrabíl á Landsspítalann á sunnudagskvöld en lést þar aðfaranótt mánudags. Í fréttatilkynningu frá lögreglu segir að bráðabirgðaniðurstaða rannsóknar bendi til að dánarorsök hafi verið blæðingar í heila.

Samkvæmt heimildum fréttastofu voru engir ytri áverkar á líkama barnsins né höfði þess.

Það þykir benda til þess að barnið hafi verið hrist það harkalega að banvænir áverkar hlutust af, svokallað shaken baby syndrom. Maðurinn sem er haldi í lögreglu er faðir stúlkunnar.

Einn dómur í samskonar máli hefur fallið á Íslandi en dagfaðir var dæmdur í 18 mánaða fangelsi í hæstarétti fyrir að banað 9 mánaða gömlu barni árið 2003.

Ragnar Bjarnason, yfirlæknir barnalækninga hjá Barnaspítala Hringsins segir að töluverð átök þurfi til að valda barni skaða með þessum hætti.

„Heilinn er laus inn í höfuðkúpunni, það geta slitnað æðar og myndast bjúgur," segir hann.

Hversu mikil átök þarf til að valda slíkum skaða?

„Mér er ekki kunnugt um slíkar rannsóknir, það þarf að taka harkalega á."

Ragnar útilokar að barn geti hlotið álíka áverka undir venjulegum kringumstæðum.

„Það þarf ekki að vera hafa áhyggjur af venjulegu hossi," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×