Handbolti

Stella: Skemmtilegasti tími ársins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Vilhelm
Stella Sigurðardóttir, leikmaður Fram, er ánægð með að úrslitakeppni N1-deildar kvenna sé loksins að hefjast. Fram mætir Gróttu í sinni rimmu í fjórðungsúrslitunum og er fyrsti leikurinn klukkan 19.30 í kvöld.

„Nú er nýtt mót að hefjast og það getur auðvitað allt gerst. Þetta er skemmtilegasti tími ársins og spennandi að þetta skuli vera að byrja," sagði Stella.

Fram tapaði fyrir Val í úrslitaleik bikarkeppninnar og Stella segir að það hefði verið erfitt að sætta sig við það. Valur er þar að auki ríkjandi deildarmeistari og því með heimavallarrétt út alla úrslitakeppnina.

„Það tók viku að hrista það af okkur en nú er nýr bikar í boði og við ætlum að gera okkar besta til að ná honum. Það þýðir ekkert að hugsa um Val strax enda eigum við erfiða leiki fram undan ef við ætlum okkur að komast í lokaúrslitin."

Fram mætir Gróttu klukkan 19.30 í kvöld. „Við ætlum okkur auðvitað að fara alla leið en vitum vel að litlu liðin geta vel strítt þeim stóru. Það hefur gerst áður ef leikmenn eru ekki á tánum."

Stella segir að það sé ýmsilegt hægt að bæta í liði Fram. „Við þurfum að byrja leikina betur og taka skynsamari ákvarðanir. Það hefur verið svolítið erfitt að koma okkur í gang og það þurfum við að bæta."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×