Sport

Norma Dögg í sögubækurnar í Moskvu

Norma Dögg Róbertsdóttir
Norma Dögg Róbertsdóttir Mynd/Fimleikasamband Íslands
Norma Dögg Róbertsdóttir náði frábærum árangri á Evrópumeistaramótinu í áhaldafimleikum sem fer fram þessa dagana í Moskvu í Rússlandi.

Þegar öll undanúrslit voru búin í gær var ljóst að Norma Dögg hafði gert sér lítið fyrir og náð 11 sæti í stökki. Hún er því varamaður inn í úrslitin sem fara fram á laugardaginn.  Aðeins átta bestu keppendurnir fá þátttökurétt í úrslitum á hverju áhaldi fyrir sig. Þetta er í fyrsta skipti sem íslensk fimleikakona er varamaður fyrir úrslit á einstöku áhaldi.  

Það voru yfir 60 keppendur á Evrópumótinu sem kepptu í stökki og ljóst að árangur Normu og annarra íslenskra keppenda í Moskvu gefur góð fyrirheit fyrir Smáþjóðaleikana sem haldnir verða í Lúxemborg í byrjun júní.

Íslensku keppendurnir.Mynd/Fimleikasamband Íslands
Undanúrslitunum í kvennakeppninni lauk í gær og af öðrum keppendum þá gekk Dominiqua Belanyi best. Hún hafnaði í 35. sæti í fjölþraut kvenna. Norma Dögg endaði svo í 44. sæti í fjölþraut, Thelma Rut Hermannsdóttir í 45. sæti og Tinna Óðinsdóttir í 51.sæti. 74 keppendur voru skráðir til keppni í kvennaflokkinum.  

Þess má einnig geta að Dominiqua endaði í 28. sæti af 74 keppendum á jafnvægisslá sem er fínn árangur. Í karlaflokknum, sem kláraðist á miðvikudaginn, hafnaði Ólafur Garðar Gunnarsson í 46. sæti í fjölþraut en Sigurður Andrés Sigurðarson  í 50. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×