Viðskipti innlent

Búinn að undirrita fríverslunarsamninginn

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, og Gao Hucheng, viðskiptaráðherra Kína, undirrituðu í morgun í Peking fríverslunarsamning milli Íslands og Kína að viðstöddum forsætisráðherrum ríkjanna. Þetta er fyrsti fríverslunarsamningur sem Evrópuríki gerir við Kína og veitir íslenskum fyrirtækjum og útflutningsgreinum forskot á ört vaxandi Kínamarkað.   

„Þetta er sögulegur samningur sem mun skapa störf á Íslandi eins og þegar eru komin fram dæmi um í þessari ferð, og opna ótal tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf og útflutning" segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra í fréttatilkynningu vegna samningsins. „Fríverslun við Kína gefur íslenskum fyrirtækum sérstakt forskot inn á þann markað heimsins sem vex langhraðast. Sú staðreynd að Ísland er fyrsta Evrópuríkið sem nær slíkum samningi við Kína skapar íslensku atvinnulífi einstakt forskot.  Það sjáum við strax á þeim samningum sem íslensku fyrirtækin eru að gera hér í þessari ferð okkar til Kína," bætir hann við.      

Helsti ávinningur fríverslunarsamningsins við Kína er niðurfelling tolla á öllum helstu útflutningsafurðum Íslands. Þar með er miklum hindrunum rutt úr vegi útflutnings íslenskrar framleiðslu til Kína.   

Allar sjávarafurðir verða tollfrjálsar, flestar strax eftir gildistöku samningsins, en örfáar að loknum 5 eða 10 ára aðlögunartíma. Algengir tollar á þeim, og mörgum öðrum mikilvægum afurðum sem Ísland flytur út, hafa verið á bilinu 10-12%. Með samningnum er líka skapaður vettvangur þar sem íslensk stjórnvöld geta  tekið upp öll þau vandkvæði sem upp kunna að koma í viðskiptum ríkjanna.  Líkt og í öðrum fríverslunarsamningum fellir Ísland á móti niður tolla á innfluttum vörum, að undanskildum ákveðnum landbúnaðarafurðum. Þannig skapast skilyrði fyrir lægra verð til íslenskra neytenda á þeim vörum sem fluttar eru inn frá Kína og bera tolla í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×