Körfubolti

Teigurinn í eigu Stjörnumanna í einvíginu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Vilhelm
Stjörnumenn hafa skorað 39,3 stig að meðaltali í leik inn í teig í undanúrslitaeinvígi sínu á móti Snæfelli og yfirburðir Stjörnumanna í teignum eiga mikinn þátt í því að Stjörnumenn geta tryggt sér sæti í lokaúrslitum í kvöld.

Stjarnan tekur á móti Snæfelli í kvöld í fjórða leik liðanna í undanúrslitaeinvígi þeirra í Dominos-deild karla í körfubolta. Leikurinn fer fram í Ásgarði í Garðabæ, hefst klukkan 19.15 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Snæfell verður að vinna til að forðast sumarfrí og tryggja sér oddaleik í Stykkishólmi á mánudagskvöldið.

Stjörnumenn hafa skorað 118 stig inn í teig í fyrstu þremur leikjunum á móti 60 stigum frá Snæfellsliðinu. Hér munar 58 stigum eða 19,3 stigum að meðaltali í leik.

Jarrid Frye og Brian Mills eiga mikinn þátt í þessum yfirburðum enda eru þeir báðir með afbragðsnýtingu í tveggja stiga skotum í einvíginu. Mills hefur hitt úr 71,4 prósent tveggja stiga skota sinn (15 af 21) í leikjunum þremur en Frye er með 60,9 prósent tveggja stiga nýtingu (28 af 46).



Stig liða í teignum í fyrstu þremur leikjum einvígis Snæfells og Stjörnunnar:

Leikur eitt - Stjarnan 34-18 (+16)

Leikur tvö - Stjarnan 46-20 (+26)

Leikur þrjú - Stjarnan 38-22 (+16)

Samanlagt - Stjarnan 118-60 (+58)



Það vekur líka athygli að Stjörnumenn hafa haft mikla yfirburði í öðrum leikhlutanum í leikjum þremur en þeir hafa skorað 38 stigum meira en Snæfellsliðið frá 11. til 20. mínútu leiksins. Mestir voru yfirburðirnir í leik þrjú í Stykkishólmi þar sem Stjarnan vann annan leikhlutann 35-14 og svo gott sem gekk frá leiknum.

Snæfellsliðið hefur reyndar alltaf svarað með góðum þriðja leikhluta (Snæfell er 76-52 yfir í 3. leikhluta í einvíginu) en það dugði bara liðinu í fyrsta leiknum. Stjarnan hefur haldið út í síðustu tveimur og fagnað sigri í þeim báðum.  

2. leikhlutinn í fyrstu þremur leikjum einvígis Snæfells og Stjörnunnar:

Leikur eitt - Stjarnan 26-18 (+8)

Leikur tvö - Stjarnan 21-12 (+9)

Leikur þrjú - Stjarnan 35-14 (+21)

Samanlagt - Stjarnan 82-44 (+38)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×