Erlent

Ljósmyndari og útgefandi ákærðir vegna nektarmynda af Kate

Franskur ljósmyndari og útgefandi franska tímaritsins Closer, hafa verið ákærðir fyrir að taka og birta myndir af hertogaynjunni Kate Middleton í Frakklandi í september á síðasta ári.

Málið vakti heimsathygli en Middelton var þá í fríi ásamt eiginmanni sínum, Vilhjálmi prins, í Frakklandi, þegar ljósmyndarinn Valerie Suau tók myndir af henni berbrjósta.

Konungsfjölskyldan brást afar illa við þegar tímaritið birti síðan myndirnar og fólu lögfræðingum sínum að vinna í málinu. Úr varð, samkvæmt fréttavef breska blaðsins Daily mail, að ljósmyndarinn og útgefandinn voru ákærð fyrir brot á friðhelgi einkalífsins.

Myndirnar voru teknar á sveitasetri Lord Linley í Frakklandi en Linley er frændi Elísabetar Bretadrottningar. Myndirnar voru mjög óskýrar og greinilega teknar af mjög löngu færi með aðdráttarlinsu. Frakkland býr yfir einni ströngustu löggjöf um persónuvernd sem þekkt er í heiminum. Kate og William voru stödd á einkaeign þegar myndirnar voru teknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×