Viðskipti innlent

Deloitte kvartaði til Logos

Stígur Helgason skrifar
Lýður Guðmundsson er einn hinna ákærðu í málinu. Hér er hann ásamt Almari Möller, lögmanni á Mörkinni.
Lýður Guðmundsson er einn hinna ákærðu í málinu. Hér er hann ásamt Almari Möller, lögmanni á Mörkinni. Mynd/ Valli.
Forsvarsmenn endurskoðunarfyrirtæksins Deloitte sendu kvörtunarbréf til lögmannsstofunnar Logos þegar þeim varð ljóst að skýrsla sem endurskoðendur fyrirtækisins höfðu unnið um hlutafjáraukningu Existu hefði verið notuð til að koma henni í gegn hjá Fyrirtækjaskrá. Frá þessu greindu bæði Þorvarður Gunnarsson, forstjóri Deloitte á Íslandi, og endurskoðandinn Hilmar Alfreðsson frá fyrir dómi nú eftir hádegi.

Í Héraðsdómi Reykjavíkur fer nú fram aðalmeðferð í máli sérstaks saksóknara gegn Lýði Guðmundssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Existu, og Bjarnfreði Ólafssyni, lögmanni á Logos, fyrir brot á hlutafélagalögum vegna gjörningsins, sem fól í sér að einungis einn milljarður var greiddur fyrir 50 milljarða hlutafjáraukningu.

Deilt er um það hvort skýrsla sem Deloitte vann um hlutafjáraukninguna hafi verið svokölluð sérfræðiskýrsla endurskoðanda í skilningi hlutafélagalaga. Verjandi Bjarnfreðs hefur reynt að sýna fram á að skýrslan hafi allt yfirbragð sérfræðiskýrslu þar sem lögð sé blessun yfir gjörninginn.

Þessu hafna hins vegar endurskoðendurnir, og segja að sé skýrslan lesin leiki enginn vafi á því að þeir hafi ekki talið mögulegt að fara þá leið sem Exista-menn vildu. Skýrslan staðfesti ekki annað en að félagið Kvakkur ehf., sem lagt var inn í Existu fyrir aukningunni, hafi átt einn milljarð króna, og að sá milljarður hafi samsvarað virði þess hlutar í Existu sem fengist fyrir hlutafjáraukninguna.

„Afstaða okkar kom skýrt fram - að við gætum ekki skrifað upp á þessa 50 milljarða hækkun," sagði Hilmar fyrir dómi um fundi sem endurskoðendurnir áttu með Exista-mönnum. Þá sagðist hann jafnframt hafa greint Lýði sjálfum skýrt frá því í símtali að Deloitte mundi ekki skrifa upp á þessi viðskipti.

„Um kvöldið hringir hann í mig. Ég segi að það geti ekki gengið upp að gera þetta svona - að auka hlutaféð með þessum hætti," sagði Hilmar. Lýður kvaðst fyrir dómi í morgun ekki muna til þess að honum hafi verið greint frá þessari afstöðu endurskoðendanna.

Þegar í ljós kom að Bjarnfreður hafði sent skýrslu Deloitte með tilkynningunni til Fyrirtækjaskrár, sem vottun fyrir því að hlutafjáraukningin væri í lagi, fauk í Deloitte-menn. „Við vorum mjög ósáttir þegar við sáum þetta því að þessi skýrsla átti aldrei að vera notuð til að koma 50 milljarða hækkun á hlutafé í gegnum félagaskrá," sagði Hilmar.

Þorvarður sagði að skrifleg mótmæli við þessu hefðu verið send Logos. Í kjölfarið hafi fulltrúar Deloitte og Logos fundað um málið en sá fundur hafi ekki leitt til neinnar niðurstöðu annarrar en þeirrar að menn væru ósammála.


Tengdar fréttir

Lýður kannast ekki við varnaðarorð Deloitte

Lýður Guðmundsson, fyrrverandi stjórnarformaður Existu, kannast ekki við það að endurskoðandi félagsins hjá Deloitte hafi tjáð honum að 50 milljarða hlutafjáraukning Existu stæðist ekki lög og Deloitte gæti aldrei skrifað upp á hana. Hann sagðist fyrir dómi fyrr í morgun ekki muna til þess að það hafi komið fram í símtali hans og endurskoðandans Hilmars Alfreðssonar.

Eftirlitsaðilar sáu ekkert athugavert

Eftirlitsaðilar sáu ekkert athugavert við hlutafjáraukninguna í Existu fyrr en hálfu ári eftir að hún var um garð genginn. Þeim var þó fullkunnugt um að einungis hefði einn milljarður verið greiddur fyrir 50 milljarða hlutafjáraukningu.

Bjarnfreður var fullur efasemda

Bjarnfreður Ólafsson, lögfræðingur á Logos, segir að hann og aðrir starfsmenn Logos hafa verið fulla efasemda um að það mundi standast að greiða einungis einn milljarð fyrir 50 milljarða hlutafjáraukningu í Existu, eins og Lýður og Ágúst Guðmundssynir gerðu í desember 2008.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×