Tollvörður, sem um tíma lá undir grun að hafa átt aðild að stórfelldu fíkniefnasmygli, mun á næstunni hefja störf á ný hjá embætti tollstjóra. Lögmaður tollvarðarins undirbýr nú fyrir hönd skjólstæðings síns kröfu um miskabætur fyrir að hafa setið í fjórar vikur í einangrun að ósekju.
Tollvörðurinn var leystu frá störfum þegar hann var hnepptur í gæsluvarðhald í kjölfar þess að upp komst um tilraun til að smygla um 17 kíló af amfetamíni og einum komma sjö lítrum af amfetamínbasa í póstsendingu frá Danmörku.
Frændi tollvarðarins er sagður einn af höfuðpaurunum í málinu og af þeim sökum mun grunur hafa beinst að honum upphaflega. Talið var að tollvörðurinn hefði séð til þess að fíkniefnahundur hafi ekki verið við vinnu þegar sendingin kom til landsins.
Ekkert benti hinsvegar til þess að sá grunur væri á rökum reistur. Að sögn Ómars Bjarnþórssonar, lögmanni tollvarðarins, neitaði skjólstæðingur hans sök allan tímann sem hann sat í gæsluvarðhaldi og lagði fram gögn og vitnisburði máli sínu til stuðnings. Farið var yfir öll símasamskipti þeirra frænda og leiddi sú rannsókn ekkert misjafnt í ljós.
Tollvörðurinn hyggst núna stefna ríkinu til greiðslu miskabóta fyrir að hafa setið í einangrun að ósekju. Að sögn Ómars liggur ekki fyrir hversu há upphæðin verður en ljóst sé að um margar milljónir sé að ræða. Tollvörðurinn mun í næstu viku hefja störf hjá embætti tollstjóra á nýjan leik. Hann var á hálfum launum þann tíma sem hann var frá vinnu en fær nú afturvirkt full laun.