Innlent

Þorpið þyrstir í fréttir af bormönnum

Kristján Már Unnarsson skrifar

Allra augu á Tálknafirði mæna þessa dagana á þrjá bormenn sem þar bora eftir heitu vatni. Þeir eru komnir niður á það dýpi þar sem heitavatnsæðin átti að vera og bíða heimamenn nú milli vonar og ótta um hvort vatnið finnist.

Borinn Nasi, sem heitir svo eftir að hann féll á trýnið við uppskipun, hefur undanfarna tvo mánuði verið að bora eftir heitu vatni í utanverðum Tálknafirði. Bormennirnir þrír frá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða, þeir Bergþór Hermannsson, Elías Rúnar Elíasson og Kjartan Þorvarðarson, eru þeir sem Tálknfirðingar fylgjast hvað best með þessa dagana. Borstjórinn Kjartan segir Tálknfirðinga heimsækja þá oft á dag til að forvitnast um hvernig gangi.

Sveitarstjórinn Indriði Indriðason er eins og grár köttur í kringum þá enda hver bordagur dýr. Allt þorpið þyrstir í fréttir af bormönnum og er búið að setja upp sérstaka fréttasíðu á facebook til að miðla upplýsingum af gangi borsins.

Bormennirnir eru komnir niður á 1.200 metra dýpi, það sem upphaflega átti að bora niður á, en heita vatnið hefur ekki enn fundist. Mikið er í húfi, hitaveita fyrir 300 manna samfélag, sem búið hefur við dýra rafmagnskyndingu, segir sveitarstjórinn að ætlunin sé að bora enn dýpra, hugsanlega niður á 1.500 metra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×