Innlent

Ekki búnir að átta sig á áhrifum dómsins

Jóhannes Stefánsson skrifar
Landsbankinn er ekki búinn að átta sig á áhrifum dómsins
Landsbankinn er ekki búinn að átta sig á áhrifum dómsins Mynd/ Pjetur

„Við erum bara að fara yfir dóminn og fara yfir þau áhrif sem hann hefur hugsanlega á okkar lánasafn. Eins og fram hefur komið áður þá er mikið undir fyrir okkur en við munum fljótlega gefa út nánari yfirlýsingar um þetta," segir Kristján Kristjánsson upplýsingafulltrúi Landsbankans um niðurstöðu Hæstaréttar í máli sem Plastiðjan höfðaði á hendur Landsbankanum.

Málið var höfðað vegna lánasamnings sem gerður hafði verið þeirra á milli en Landsbankinn hafði brugðið á það ráð að reikna seðlabankavexti afturvirkt á lánið eftir að Hæstiréttur hafði dæmt gengistryggingu lánsins ólögmæta þann 16. júní 2010. Lögmaður Plastiðjunnar telur fordæmisgildi dómsins gríðarlegt.

Mögulegt er að þau fjármálafyrirtæki sem lánuðu gengistryggð bílalán, sem síðar voru dæmd ólögleg og höfðu verið endurútreiknuð þurfi nú að endurútreikna lánin að nýju. Ekki liggur fyrir hver áhrif dómsins eru en líklegt þykir miðað við niðurstöðu dómsins frá því í dag að staða einhverra lántakanda geti í skjóli dómsins breyst, en milljarðar eru í húfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×