Lífið

Hemmi gerði heiminn svo miklu betri

Ellý Ármanns skrifar

Við höldum áfram að rifja upp góðar stundir með fólki sem þekkti Hermann Gunnarsson sem féll frá í fyrradag. Útvarpskonan fyrrverandi Sigga Lund, sem rekur vefsetur í dag Siggalund.is, var svo heppin að fá að sitja á móti Hemma þegar hún starfaði hjá Bylgjunni. Þá var hún einnig með Hemma í nokkrum útsendingum. Sigga rifjaði upp með okkur þegar hún fékk að njóta nærveru Hemma.

Perluvinir

„Ég sat á móti Hemma á gólfinu og urðum við perluvinir. Ég fékk hann oft til að hjálpa mér við hin ýmsu verkefni sem ég var að vinna að í útvarpinu og ég fékk oft góð ráð frá þessum mikla reynslubolta, enda bar ég mikla virðingu fyrir honum. Við hlógum oft mikið og göntuðumst þarna við skrifborðið og ræddum allt milli himins og jarðar á milli þess sem vinnunni var sinnt," segir Sigga.

„Ástarmálin voru til dæmis rædd í þaula, sælla minninga, og hann hafði sterkar skoðanir. Ég hugsaði með mér, hún verður heppin konan sem hreppir þennan töffara að lokum."  

Ilmaði vel

„Það fór aldrei á milli mála þegar Hemmi mætti í vinnuna og það var ekki bara vegna þess að hann kom inn hlæjandi og bauð öllum góðan dag, heldur líka vegna þess að hann ilmaði svo vel. Maður fann það stundum inn í stúdíó að hann var mættur."

Hann var alvöru

„Maður getur ekki annað en fyllst hlýju þegar maður hugsar um Hemma. Hann var bara alvöru. Og þrátt fyrir allt grínið og hláturinn var líka alvarlegur undirtónn og hann lét sig hlutina varða. Það klikkaði ekki þegar ég átti slæman dag - þá tók hann eftir því, sagði einhver vel valin orð og gaf mér knús.  Mér mun alltaf þykja undur vænt um þennan öðling og hugsa til hans með virðingu. Ég er bara ein af svo mörgum sem hann snerti á lífsleiðinni og það er það sem hann gerði. Hann snerti fólk á sinn einstaka hátt og gerði heiminn og fjölmiðlaheiminn svo miklu betri," segir Sigga.

Minntust Hemma með þakklæti og virðingu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.