Innlent

Telur sig hafa fundið náttúruníðinginn

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Hlynur Hallsson tók þessa mynd á listasýningu í Berlín. Á innfelldu myndinni má sjá Julius von Bismarck.
Hlynur Hallsson tók þessa mynd á listasýningu í Berlín. Á innfelldu myndinni má sjá Julius von Bismarck. Samsett mynd

Hlynur Hallsson, myndlistarmaður á Akureyri, telur sig hafa fundið þann sem framdi náttúruspjöll í Mývatnssveit á dögunum. Það er Akureyri vikublað sem greinir frá þessu.

Hlynur var á sýningarrölti í Berlín þegar hann rakst á listaverk eftir erlendan listamann að nafni Julius von Bismarck, en þar komu náttúrufyrirbrigðin við Mývatn við sögu eftir að búið var að mála á þau orð.

Myndir sem Hlynur tók á listasýningunni benda til þess að fleiri náttúruspjöll hafi verið framin hér á landi en greint hefur verið frá. Umhverfisstofnun hefur kallað gjörninginn „náttúruterrorisma“ og stangast hann á við íslensk lög. Viðurlög við brotum á íslenskum náttúruverndarlögum geta verið allt að tveggja ára fangelsi.

Listamaðurinn sem spjótin beinast að er sagður hafa margvísleg tengsl við Ísland og hefur samkvæmt heimildum Akureyri vikublaðs haldið sýningar hér á landi.

Náttúruspjöllin vöktu mikla athygli og umtal þegar greint var frá þeim fyrir skemmstu, en meðal annars var búið var að mála orðin CRATER á Hverfjalli, LAVA við Kálfaströnd og CAVE í Grjótagjá.

Lögreglan á Húsavík fer með rannsókn málsins en hefur orðið einskis vísari þar til nú.

„Mér finnst ekki ólíklegt að tekin verði skýrsla af Hlyni,“ segir talsmaður lögreglunnar á Húsavík. Hann segir vísbendingar hafa komið um hóp listamanna sem staddur var í Mývatnssveit á þeim tíma sem skemmdarverkin voru unnin, en þær hafi ekki skilað neinu.

„Með tilkomu nýrra vísbendinga finnst mér líklegt að farið verði í málið af fullum þunga.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×