Innlent

Verk Ragnars valið meðal tíu bestu

Jakob Bjarnar skrifar
Ragnar Kjartansson er á heimavelli í Feneyjum.
Ragnar Kjartansson er á heimavelli í Feneyjum.

Gagnrýnandi The Observer hefur tekið saman eftirlætisverk sín á Feneyjartvíæringnum, tíu bestu og þar eiga Íslendingar sinn fulltrúa.

Feneyjatvíæringurinn, ein helsta og viðamesta listahátíð veraldarinnar, var opnuð um helgina. Katrín Sigurðardóttir er fulltrúi Íslands og hefur smíðað stóra innsetningu í íslenska skálann. Ísland hefur aldrei lagt eins mikið undir og núna en auk Katrínar eiga fjórir aðrir íslenskir listamenn verk á tvíæringnum. Ragnari Kjartanssyni var boðið sérstaklega að sýna á aðalsýningu Tvíæringsins af sýningarstjóranum sjálfum, Massimiliano Gioni.

Ragnar sýnir verkið Hangover og það var einmitt það verk sem fangaði athygli Lauru Cumming, gagnrýnanda The Observer, sem valdi tíu eftirlætis verk sín á sýningunni. Verk Ragnars er gamall fiskibátur sem gengið hefur í gegnum breytingar; hann siglir milli viðkomustaða í frægri skipakví Feyneyja, daglega fram á haust, og um borð verður svo blásarasveit sem leikur tónverk eftir Kjartan Sveinsson. Ragnar var fulltrúi Íslands á Feyneyjartvíæringnum 2009 og vakti verk hans Endalokin þá mikla athygli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×