Sport

Gull hjá íslensku sveitinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Heimasíða ÍR

Íslenska frjálsíþróttafólkið vann til fjölda verðlauna á lokadegi Smáþjóðaleikanna í Lúxemborg.

Nú síðdegis vann Ísland gull í 4x400 m hlaupi kvenna en sveitin skilaði sér í mark á 3:40,97 mínútum. Hana skipuðu Stefanía Valdimarsdóttir, Fjóla Signý Hannesdóttir, Hafdís Sigurðardóttir og Aníta Hinriksdóttir.

Íslensku konurnar unnu svo silfur í 4x100 m hlaupi en Hafdís og Sveinbjörg voru einnig í þeirri sveit auk Maríu Rúnar Gunnlaugsdóttur og Hrafnhild Eir Hermóðsdóttur.

Ísland hljóp á 46,43 sekúndum og var tæpri hálfri sekúndu á eftir sveit Kýpverja.

Íslenska sveitin í 4x100 m hlaupi karla var svo dæmd úr leik en samkvæmt Facebook-síðu FRÍ á enn eftir að skera endanlega úr um ógildingu íslenska liðsins.

Sveinbjörg keppti svo í kúluvarpi kvenna og vann bronsverðlaun. Hennar besta kast var 12,49 m en Florentina Kappa frá Kýpur vann þessa grein með nokkrum yfirburðum með kasti upp á 15,36 m.

Fyrr í dag vann Kári Steinn Karlsson brons í 10 þúsund metra hlaupi auk þess sem að Íslendingar voru sigursælir í spjótkasti karla og 200 m hlaupunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×