Innlent

Nýtt glæsihýsi fyrir verknám rís á Selfossi

Tinni Sveinsson skrifar
Gert er ráð fyrir því að framkvæmdir hefjist snemma á næsta ári.
Gert er ráð fyrir því að framkvæmdir hefjist snemma á næsta ári. Mynd/T.ark
T.ark - Teiknistofan Arkitektar hlaut á föstudag fyrstu verðlaun í hönnunarsamkeppni um stækkun á verknámsaðstöðu Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist snemma árs 2014 og þeim verði lokið um áramótin 2014-15.

Rúmt ár er síðan mennta- og menningarmálaráðuneytið og sveitarfélög sem eiga aðild að Fjölbrautarskóla Suðurlands gerðu með sér samning um að reisa myndarlega viðbyggingu til að bæta verknámsaðstöðu skólans. Ákveðið var að bjóða til opinnar samkeppni um hönnunina í samvinnu við Arkitektafélag Íslands og var hún auglýst á EES-svæðinu.

Alls bárust 25 tillögur. Dómnefndin leitaði einkum eftir snjöllum hugmyndum sem leystu viðfangsefnið á heildstæðan hátt með vandaðri og góðri byggingarlist.

FSu er þróttmikill framhaldsskóli sem markað hefur sér skýra framtíðarsýn um fjölbreytt og metnaðarfullt skólastarf, segir í tilkynningu en verkgreinakennsla fær að njóta sín í nýja húsinu.Mynd/T.ark
„Formið er tímalaust og burðarvirki er augljóst og um leið fræðandi og spennandi. Heildaryfirbragð er gott og er Hamar á sannfærandi hátt órjúfanlegur hluti af heildarásýnd. Guli liturinn hefur beina skírskotun til Odda og dagsbirtunotkun er góð,“ segir meðal annars í umsögn dómnefndar um tillögu T.ark. 

Í hönnunarhópi stofunnar eru Ásgeir Ásgeirsson, Ásmundur H. Sturluson, Halldór Eiríksson, Hlín Finnsdóttir og Michael Blikdal Erichsen.

Teiknistofa arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar ehf. hlutu önnur verðlaun og þriðju verðlaun hlaut Arkitektastofan OG ehf. Allar tillögurnar verða til sýnis í skólanum til mánaðarmóta.

Nýja húsið er rétt við aðalhús Fjölbrautarskóla Suðurlands og er sami guli litur ráðandi í þeim báðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×