Sport

Hernandez handtekinn og rekinn frá Patriots

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/AP
Aaron Hernandez, einn besti innherji NFL-deildarinnar, var í dag handtekinn og ákærður fyrir morð. Lið hans, New England Patriots, tilkynnti í dag að Hernandez væri ekki lengur leikmaður þess.

Fyrir viku síðan fannst 27 ára gamall karlmaður látinn skammt frá heimili Hernandez. Rannsókn lögreglunnar beindist fljótt að heimilinu og nánasta umhverfi þess, auk þess sem Hernandez sjálfur var heimsóttur af lögreglunni.

Maðurinn sem fannst látinn hét Odin Lloyd og lék bandarískan ruðning í hálfatvinnumannadeild. Ættingjar hans segja að Lloyd hafi verið í sambandi með systur Hernandez og að þeir tveir hafi verið góðir félagar.

Stuttu eftir að hann var handtekinn að Hernandez hafi verið ákærður fyrir morð. Ákærurnar voru alls fimm talsins en hinar voru í tengslum við vopnaburð.

„Orð fá ekki lýst þeim vonbrigðum okkar að einn leikmanna okkar var handtekinn vegna þessarar rannsóknar,“ sagði í yfirlýsingu frá Patriots. „Við vitum að rannsóknin er enn í gangi og við berum virðingu fyrir því. En við teljum það rétt að slíta tengslum við leikmanninn nú.“

Hernandez var valinn af Patriots í nýliðavalinu árið 2010. Hann fékk fimm ára samning í fyrra sem var 40 milljóna dollara virði.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×