Innlent

Guðmundur Felix á flæðiskeri staddur

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Guðmundur Felix bíður handaágræðslu.
Guðmundur Felix bíður handaágræðslu.
Guðmundur Felix Grétarsson, sem missti báða handleggi í hörmulegu vinnuslysi fyrir fimmtán árum, er á flæðiskeri staddur í Frakklandi þar sem hann bíður eftir handaágræðslu. Hann fær ekki að flytja söfnunarfé úr landi og óttast að lenda á götunni í næstu viku.

Guðmundur er nú staddur í Lyon í Frakklandi, þar sem hann undirbýr sig fyrir aðgerðina miklu. Hún er fyrirhuguð í september næstkomandi.

Síðustu ár hefur Guðmundur safnað fé fyrir aðgerðinni en hún kostar um 25 milljónir króna. Hann fékk undanþágu frá gjaldeyrislögum til að kaupa evrur fyrir söfnunarféð. Nú er sú staða hins vegar komin upp að hann fær ekki að flytja féð úr landi.

Guðmundur er nú stadddur í leiguíbúð í Lyon meðan hann leitar að húsnæði, fyrst þarf hann að ræða við lögfræðinga Seðlabankans um peningana.

„Þessi undanþága sem ég fékk hún tók víst bara til þess að kaupa evrurnar en ekki flytja þær úr landi," segir Guðmundur Felix. „Við verðum á götunni í næstu viku ef þetta gengur ekki, þannig að við erum í skítamálum."

Guðmundur vonast til að leysa peninginn út á næstu dögum. Hann segir það vera hræðilegt að þurfa að hafa áhyggjur af slíkum málum, nú þegar styttist í aðgerðina.

„Nóg er nú óvissan, þó ekki sé fyrir húsnæðismál og þetta rugl, þessi gjaldeyrishaftamál," segir Guðmundur Felix.

Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum virðist misskilningur hafa átt sér stað og er Guðmundi ráðlagt að hafa samband við gjaldeyriseftirlit bankans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×