Lífið

Stefán Karl leggur í stæði fyrir fatlaða

Jakob Bjarnar skrifar
Stefán Karl: "Mér brá mikið við þetta og líður illa að hafa lagt í slíkt stæði."
Stefán Karl: "Mér brá mikið við þetta og líður illa að hafa lagt í slíkt stæði."
Stefán Karl Stefánsson leikari, sem meðal annars hefur starfað að mannréttinda- og góðgerðarmálum svo sem í tengslum við Regnbogabörn og baráttunni gegn einelti, virtist ekki sjálfum sér samkvæmur þegar hann í dag gerði sér lítið fyrir og lagði í stæði fyrir fatlaða.

Sjálfur er leikarinn með böggum hildar vegna atviksins sem var í ógáti. Hann segir svo frá, á Facebooksíðu sinni, að hann hafi farið í Rekstrarvörur í dag, lagt þar í bílastæði...  "hljóp inn og verslaði. Þegar ég kom út var maður með reiðisvip sem skammaðist eitthvað út um gluggann, ég heyrði ekki hvað það var en hann spurði hvort ég ætlaði ekki að bakka? Ég svaraði því játandi. Þegar ég bakkaði út úr stæðinu sá ég einhverjar hvítar skellur í malbikinu, getað verið hvað sem er."

Það var á þessu stigi málsins sem Stefán Karl áttaði sig á því að honum hefði orðið á í messunni: "Mér brá mikið við þetta og líður illa að hafa lagt í slíkt stæði. Hins vegar vil ég benda Rekstrarvörum á að merkja stæðið betur, með skilti og mála malbikið svo fólk eins og ég leggi ekki í þessi stæði."

Sögunni lýkur svo með einlægri afsökunarbeiðni leikarans: "Aumingja manninn sem beið eftir stæðinu vil ég hins vegar biðja auðmjúklega afsökunnar á þessu og mun hafa persónulega samband við Rekstrarvörur og óska eftir því að úr þessu verði bætt hið snarasta."

Vinir Stefáns Karls á Facebook taka þessu atviki létt; Stefán er spurður hvort hann hafi ekki örugglega verið á Range Rover, af hverju hann hati fatlaða og því slegið fram að Glanni glæpur "strikes again" með vísan til þekktasta hlutverks leikarans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.