Lífið

Stofnuðu tískublogg tileinkað mömmu sem fer sínar eigin leiðir í tískunni

Hanna Ólafsdóttir skrifar
Guðbrandur Ágúst, Jóhanna Helga, Magna Fríður, Friðrikka Björk og Birna Bryndís. Systkynin segja móður sína skemmtilega frumlega í fatavali.
Guðbrandur Ágúst, Jóhanna Helga, Magna Fríður, Friðrikka Björk og Birna Bryndís. Systkynin segja móður sína skemmtilega frumlega í fatavali.
„Mamma hefur alltaf farið sínar eigin leiðir í tískunni og virðist alltaf vera á undan straumnum. Yngsta systir mín sem er grafískur hönnuður fékk hugmyndina að blogginu eftir að hafa séð síðu sem heitir What Ali wore og við ákváðum að byrja á þessu verkefni,“ segir Jóhanna Helga Þorkelsdóttir myndlistarkona, sem ásamt systkinum sínum, Birnu Bryndísi, Friðrikku Björk og Guðbrandi Ágústi, setti á laggirnar tískublogg tileinkað móður þeirra Mögnu Fríði Birnir.

Bloggið heitir What Magna wore og sýnir myndir af Mögnu klædda upp eins og henni er lagið.

Síðan hefur fengið talsverða athygli frá því hún var stofnuð og segir Jóhanna að yfir 300 IP-tölur hafi skoðað hana fyrsta sólarhringinn.



„Við tókum mynd af mömmu í hvert skipti sem við hittum hana og í fyrstu vissi hún ekkert af þessu verkefni. Þegar hún sá bloggið fannst henni það æðislegt og er núna aðeins farin að spila með og klæða sig sérstaklega upp á þegar hún hittir okkur.“

Jóhanna Helga segir takmarkið að taka 100 myndir og gefa síðan út bók. „Við höfum öll svo gaman af þessu og takmarkið er að þetta endi sem bók. Mamma á heilu skipsfarmana af fötum heima hjá sér þannig að við eigum ekki eftir að verða uppiskroppa með myndefni.“

Magna glæsileg í minkapelsjakka, síðkjól úr silki og Marco Polo hælum
Jóhanna segir að þegar hún og systkini hennar voru unglingar hafi þeim oft þótt klæðnaður móður þeirra vandræðalegur. „Okkur fannst þetta oft óþægilegt þegar við vorum unglingar en núna finnst okkur þetta æðislegt. Hún hugsar út fyrir kassann og oft sér maður hana í einhverju sem manni finnst alls ekki smart en síðan er það komið í tísku stuttu seinna og maður biður um að fá það lánað hjá henni,“ segir Jóhanna kímin.



Magna Fríður er menntaður hjúkrunarfræðingur og starfaði lengi sem slíkur. Í dag starfar hún sem dáleiðari og rekur hún sína eigin stofu.

„Mamma er mikill listamaður í sér þó að hún starfi ekki sem slíkur og þetta er hennar leið til þessa að fá útrás fyrir sköpunarkraftinn. Hún er ekkert feimin við athyglina sem hún fær enda myndi hún ekki klæðast svona fötum ef svo væri.“

Hér klæðist Magna vintage silki kjól, Brogan jakka og Camper skóm





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.