Lífið

Gillz spilar á sumarstúlkukeppni á Selfossi

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Óli, Egill og Ásgeir fara í eina sæng á Stuðlagaballi á Selfossi.
Óli, Egill og Ásgeir fara í eina sæng á Stuðlagaballi á Selfossi.
Skemmtanafyrirtækið Agent.is mun standa fyrir svokölluðu Stuðlagaballi í Hvíta húsinu á Selfossi næstkomandi laugardag. Egill „Gillz“ Einarson verður aðal plötusnúður kvöldsins, en hann spilar undir nafninu DJ Muscleboy þessa dagana. Óli Geir sér um að hita upp og tekið er sérstaklega fram á Facebook-síðu viðburðarins að Ásgeir Kolbeinsson sé sérlegur ráðgjafi þeirra félaga.

Fyrr um kvöldið mun svo fegurðar- og framkomukeppnin Sumarstúlka Selfoss fara fram í Hvíta húsinu, en þetta verður í sjötta sinn sem keppnin er haldin. Árleg sumarstúlkukeppni er einnig haldin í Vestmannaeyjum.

„Þetta snýst allt um að hafa gaman og það getur hver sem er tekið þátt í Sumarstúlkunni.Það er ekki valið inn eftir útliti eða þyngd, fyrstu tíu til að skrá sig fá einfaldlega að taka þátt,“ segir Gunnar Karl Ólafsson, umsjónarmaður keppninnar. Hann segir að keppnin sé ekki venjuleg fegurðarsamkeppni  heldur sé um sumarskemmtun að ræða.  „Stelpurnar læra að koma fram og labba á pallinum, en þetta er bara mjög góður vettvangur fyrir þær til að koma fram og vekja athygli á sér. Þetta er miklu frekar framkomukeppni heldur en fegurðarkeppni og ég myndi til dæmis ekki líkja þessu við Ungfrú Suðurland, sem snýst um allt aðra hluti.“ segir Gunnar jafnframt.

Keppnin hefur verið haldin við hin ýmsu tilefni í gegnum tíðina, en ákveðið var að samtvinna hana við Stuðlagaballið í ár. Egill Gillz og Óli Geir munu sjá um að dæma keppnina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.