Lífið

Kvikmynd um nasistauppvakninga tekin upp á Íslandi

Valur Grettisson skrifar
Íslensk framleiðslufyrirtæki hafa vart undan því að sinna erlendu tökuliði sem vill búa til kvikmyndir hér á landi. Nýjasta viðbótin er þó öllu nýstárlegri en þær kvikmyndir sem hafa verið teknar upp hér á landi, en sú fjallar um nasista og uppvakninga.

Það var árið 2009 sem norski leikstjórinn Tommy Wirkola frumsýndi grínhrollvekju sína, Dead Snow.

Umfjöllunarefni myndarinnar er nokkuð hefðbundið - með einu fráviki þó. Sagan segir frá nokkrum vinum sem fara í frí í fjallakofa í afskekktum firði í Noregi. Þar hitta þau fyrir dularfullan mann sem upplýsir þau um að nasistar hafi hertekið fjörðinn í seinni heimstyrjöldinni. Nasistarnir reyndust heldur illskeyttir og hlutu að lokum hörmuleg endalok.

Í myndinni snúa þeir aftur sem grimmir uppvakningar og herja á ungmennin - sem verjast þó fimlega árásum ófreskjanna.

Kvikmyndin skaut leikstjóranum á stjörnuhimininn og leikstýrði hann meðal annars hrollvekju um nornaveiðar Hans og Grétu, en óskarsverðlaunaleikarinn Jeremy Renner lék aðalhlutverkið í myndinni.

Nú stendur til að kvikmynda framhaldið - Dead snow: War of the dead. Það er Sagafilm sem aðstoðar myndatökumenn við framleiðsluna hér á landi og samkvæmt erlendum vefsíðum munu upptökur hefjast í ágúst eða september.

Söguþráður nýju myndarinnar er ekki mjög frábrugðin þeirri fyrri, utan að fleiri uppvakningar munu láta sjá sig samkvæmt tilkynningu frá leikstjóranum sjálfum, og var birt á erlendum vefsíðum fyrr á árinu.

Það er því ekki ólíklegt að íslenskir leikarar fái að spreyta sig sem uppvakningar í nasistafötum.

Hér fyrir ofan má sjá stiklu úr myndinni. Við vörum samt viðkvæma við, enda um hryllingsmynd að ræða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.