Innlent

Skorar á Vesturlönd að setja rússneska þingmenn í ferðabann

Heimir Már Pétursson skrifar
Nikolai Alekseev hefur margoft verið handtekinn fyrir tilraunir til að koma á gleðigöngum í Moskvu og víðar.
Nikolai Alekseev hefur margoft verið handtekinn fyrir tilraunir til að koma á gleðigöngum í Moskvu og víðar.
Nikolai Alekseev lögfræðingur og leiðtogi réttindahreyfingar samkynhneigðra í Rússlandi segir að það hafi ekkert upp á sig að sniðganga vörur eins og Stolichnaya vodka til að þrýsta á rússnesk stjórnvöld að bæta ráð sitt varðandi mannréttindi hinsegin fólks. Framleiðendur vöru eins og Stolichnaya hafi engin áhrif á rússnesk stjórnvöld, Vladimir Pútin forseta og þingmenn Dúmunnar.

Vilji vestræn ríki leggja mannréttindabaráttu hinsegin fólks í Rússlandi lið ættu þau að setja ráðherra og þingmenn sem stóðu t.d. að nýlegri lagasetningu sem þrengir mjög réttindi hinsegin fólks í Rússlandi á bannlista, þannig að þetta fólk geti ekki ferðast til Vesturlanda.

Slík aðgerð væri mun líklegri til árangurs en það að sniðganga einstakar vörur frá Rússlandi. Ferðabann á nokkra þingmenn myndi fæla aðra stjórnmálamenn frá því að styðja óréttláta löggjöf gagnvart hinsegin fólki.

Nikolai Alekseev getur tekið þátt í gleðigöngum utan Rússlands en ekki í heimalandinu þar sem slíkar göngur eru bannaðar.
Nikolai talar af mikilli reynslu um þessi mál en hann hefur margoft verið handtekinn fyrir tilraunir til að koma á gleðigöngum í Moskvu og víðar og orðið fyrir líkamlegu ofbeldi andstæðinga réttinda hinsegin fólks sem gert hafa aðsúg að litlum hópum fólks sem reynt hafa að fara í gleðigöngur, eins og sést á meðfylgjandi mynd.

Þá handtók rússneska leyniþjónustan hann í fyrra og hélt honum á óþekktum stað í um hálfan mánuð og sleppti honum síðan lausum langt fyrir utan Moskvu.

Stjórnvöld víða á Vesturlöndum spurðust fyrir um hann á meðan enginn vissi hvar hann var, m.a. Össur Skarphéðinsson þáverandi utanríkisráðherra, sem kallaði sendiherra Rússlands á sinn fund vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×