Sport

Slagsmál fyrrum hnitfélaga rannsökuð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Alþjóðabadmintonsambandið hefur til rannsóknar slagsmál sem brutust út á Opna Kanadíska meistaramótinu um helgina.

Tælendingarnir Bodin Issara og Maneepong Jongjit, sem kepptu saman í tvíliðaleik á Ólympíuleikunum í London, voru ekki á eitt sáttir þegar þeir mættust í úrslitaleiknum í tvíliðaleik í Kanada um helgina.

Á meðfylgjandi myndbandi sést Issara elta Jongjit uppi, stökkva yfir auglýsingaskilti og láta hnefahögginn dynja á landa sínum. Þjálfarar og starfsfólk gripu í leikinn. Áður hafði dómari leiksins þurft að vara Tælendingana við vegna slæms orðbragðs.

Issara og félaga hans, vilailak Pakkawat, voru dæmdir úr keppni og Jongjit og Nipitphon Puangpuapech dæmdur sigur. Í yfirlýsingu frá Alþjóðabadmintonsambandinu segir að málið sé til rannsóknar.

Jongjit og Issara komust í átta liða úrslit á Ólympíuleikunum í London. Í janúar var tilkynnt að þeir myndu ekki lengur keppa saman í tvíliðaleik þar sem Issara ætlaði að leggja spaðann á hilluna.

Íþróttamaðurinn 22 ára ákvað hins vegar að halda áfram leik skömmu síðar og var kominn með nýjan liðsfélaga. Atvikið setur svartan blett á íþróttina en tvær vikur eru í að HM í badminton fari fram í Kína.

Ár er síðan badmintonkeppnin á Ólympíuleikunum vakti athygli um heim allan þar sem keppendur í tvíliðaleik kvenna reyndu vísvitandi að tapa leikjum sínum.




Tengdar fréttir

Allir badmintonspilararnir átta reknir heim af ÓL

Alþjóða badmintonsambandið tók hart á óíþróttamannslegri hegðun í badminton-keppni Ólympíuleikanna í London í gærkvöldi því fjögur pör, sem öll voru komin áfram í átta liða úrslit, hafa verið rekin heim.

Badminton-svindlarar ekki sáttir við bann

Badminton-skandalinn sem skók Ólympíuleikana er ekki enn búinn. Fjórar Suður-kóreskar badmintonkonur hafa áfrýjað tveggja ára banninu sem þær fengu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×