Fótbolti

Óheimilt að flytja SigurWin úr landi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðbjörg Gunnarsdóttir með gullfiskinn SigurWin.
Guðbjörg Gunnarsdóttir með gullfiskinn SigurWin. Mynd/Facebook
Gullfiskurinn SigurWin er á leið til Malmö þar sem ekki fékkst heimild til að flytja hann úr landi.

Til stóð að SigurWin yrði fluttur til Kaupmannahafnar þar sem sjúkraþjálfarinn Erla Hendriksdóttir býr, eins og greint var frá í Vísi í morgun.

„Hann er heill á húfi, blessaður. Til stóð að hann færi til Kaupmannahafnar þar sem Erla Hendriksdóttir sjúkraþjálfari býr en þá komumst við að því að það mátti ekki,“ segir Ómar Smárason, fjölmiðlafulltrúi KSÍ, við Vísi.

„Við vorum í sambandi við sóttvarnarfulltrúa sem tjáði okkur að það væri ekki heimilt að flytja hann úr landi. Hann fór því til Malmö í fylgd Söru Bjarkar [Gunnarsdóttur] og Þóru Bjargar [Helgadóttur] þar sem hann fer í gæludýrabúð.“

„Ég á von á því að gæludýrabúðir í Malmö munu slást um þennan fisk sem er orðinn frægur í Svíþjóð. Hann hlýtur að fá algjöra stjörnumeðferð.“

Í morgun var greint frá því að kvennalandsliðið hefði verið kært fyrir dýraníð. Bæði vegna þess að hann var hafður í of lítilli krukku auk þess sem talið hafði verið að honum hefði verið sturtað í klósettið. Svo var þó ekki.

Ómar segir að fjölmiðlafárið í kringum SigurWin hafi verið engu líkt. „Ég hef fengið ótrúlega mörg símtöl frá sænskum fjölmiðlum. Ein sjónvarpsstöðin fór meira að segja fram á að fá mynd af honum til að sýna að hann væri enn á lífi. Þetta hefur verið með ólíkindum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×