Það verða ekki aðeins leikmenn íslenska kvennalandsliðsins sem mæta á blaðamannafund íslenska liðsins í dag því þar verður einnig nýjasta stjarna liðsins, lukku-gullfiskurinn Sigurwin.
Íslenskum blaðamönnum var lofað því í gær að þeir fengju að sjá Sigurwin þegar þeir hitta stelpurnar á hótelinu í dag.
Á fésbókarsíðu kvennalandsliðsins er skemmtilegur texti um þennan smávaxna fisk sem er að öðlast heimsfrægð enda voru sænsku blaðamennirnir afar áhugasamir um hann í gær.
„Gullfiskurinn Sigurwin hefur vakið mikla athygli. Mörg íþróttalið eiga sér lukkudýr, sum stór og hættuleg. Sigurwin er pínkulítill. En hann er hugumprúður og heiðarlegur, með stórt hjarta og hugrakkur með eindæmum. Hann hræðist ekki neitt og er til í hvað sem er, gegn hverjum sem er. Eins og Ísland ...," segir á fésbókarsíðu íslenska liðsins.
Sigurwin kemur væntanlega ferskur á blaðamannafundinn enda fékk hann dekurdag í gær þar sem hann slapp meðal annars úr krukkunni og fékk að sprika aðeins í baðkari.
