Innlent

Skoða að hafa Skólavörðustíginn göngugötu áfram

Rekstraraðilar og íbúar við Skólavörðustíg hafa farið fram á það í bréfi til borgarstjóra að gatan verði göngugata fram yfir Menningarnótt.

Sumargöturnar voru opnaðar þann 1. júní síðastliðinn og til stóð að þeir kaflar Skólavörðustígs og Laugavegar sem hafa verið sumargötur yrðu lokaðir fyrir umferð vélknúinna ökutækja til mánudagsins 5. ágúst næstkomandi vegna gatnaframkvæmda í miðborginni.

Rekstraraðilar við Skólavörðustíg telja þær framkvæmdir ekki hafa áhrif á umferð um götuna þar sem gangandi umferð er það mikil fyrir.

Í tilkynningu frá borginni segir að mikil ánægja hafi verið með fyrirkomulagið meðal rekstraraðila við Skólavörðustíg og allir aðilar á svæðinu hafi viljað hafa götuna sumargötu lengur en áður auglýstan tíma.

„Í bréfi rekstraraðila og íbúa við Skólavörðustíg til borgarstjóra er óskað eftir því að hafa götuna sumargötu fram yfir Menningarnótt sem í ár verður haldin þann 24. ágúst nk.

Í bréfinu segir: „Það er vilji okkar íbúa og rekstraraðila að halda við upphaflegt plan sem var fram yfir Menningarnótt."

Reykjavíkurborg fagnar frumkvæði rekstraraðila og íbúa við Skólavörðustíg, sem sýnir að sumargötur eru kærkomin viðbót við miðborgarbraginn. Málið er nú til skoðunar á Umhverfis- og skipulagssviði.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×