Lífið

Bara grín hefur göngu sína í kvöld

Björn Bragi er með umsjón þáttarins.
Björn Bragi er með umsjón þáttarins.
Fyrsti þátturinn af Bara grín fer í loftið í kvöld klukkan 20:15, en þá verður litið aftur til þáttaraðarinnar 70 mínútur. Rætt verður við alla þá sem komu að þættinum og þessi tími rifjaður upp. Þættirnir voru sýndir á árunum 2000-2005.

„Það er skemmtileg sagan á bak við þennan þátt,“ segir umsjónarmaðurinn Björn Bragi. „Það er eiginlega bara magnað að þátturinn hafi orðið að veruleika því það var ekkert fjármagn á bak við hann og ekkert bakland. Enginn virtist heldur hafa trú á honum.“

Björn Bragi segir að þáttagerðin hafi verið hálfgerð þrautaganga fyrir þá sem stóðu að honum.

„Þeir voru dálítið einir og var kastað út í horn til þess að gera þetta. Þeir fengu takmarkaðan tíma í stúdíóinu. Það var nefnilega þannig að á meðan „alvöru tæknimennirnir“ voru í matartíma fengu þeir að nota stúdíóið.“

Strákarnir í 70 mínútum eru í dag þekktir af öðrum verkum.

„Það er gaman að skoða þessi gömlu brot þar sem Auddi er með hár og Simmi er spikfeitur og þeir taka upp á einhverri vitleysu sem þeir myndu eflaust ekki láta sér detta í hug í dag. Og það er örugglega margt sem við rifjum þarna upp sem menn vilja ekkert endilega sjá aftur í sjónvarpinu,“ bætir hann við og hlær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.