Hinsegin dagar náðu hápunkti sínum með árlegri gleðigöngu í gær, en dagskrá hátíðarinnar lýkur formlega í kvöld. Dagskrá Hinsegin daga teygir anga sína til Viðeyjar í dag, en þar hófst regnbogahátíð fjölskyldunnar klukkan tólf og stendur til klukkan fimm. Siglt er frá Skarfabakka í Sundahöfn á klukkustundar fresti frá kl. 11:15–17:15 og oftar ef þörf krefur. Ferjan leggur úr höfn í Reykjavík stundarfjórðung yfir heilan tíma. Regnbogaveitingar verða í boði Viðeyjarstofu fyrir börn og fullorðna og samverustund og leikir í boði Félags hinsegin foreldra.
Í kvöld klukkan sex verður heimildarmyndin Edie og Thea sýnd í Bíó Paradís og verður aðgangur ókeypis. Að myndinni lokinni munu leikstjórarnir Susan Muska og Gréta Ólafsdóttir svara spurningum, auk þess sem móttaka verður í boði Sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi.
Hinsegin dögum líkur svo formlega með sérstakri Regnbogamessu í Dómkirkjunni í kvöld en það verður Séra Hjálmar Jónsson, sóknarprestur í Dómkirkjunni, sem þjónar fyrir altari og predikar. Messan hefst klukkan átta og eru allir velkomnir.
