Innlent

Morðmálið á Egilsstöðum: Var stunginn 92 sinnum

Boði Logason í Héraðsdómi Austurlands skrifar
Karl Jónsson, sem var ráðinn bani í íbúð sinni á Egilsstöðum í maí síðastliðnum, var stunginn 92 sinnum. Þetta kom fram fyrir dómi nú eftir hádegi.
 
Í hádeginu fóru dómarar, saksóknari og verjandi á heimili Karls að Blómavangi á Egilsstöðum þar sem vettvangurinn var skoðaður. Friðrik Brynjar Friðriksson, sem er ákærður fyrir að hafa orðið Karli að bana, kaus að fara ekki í vettvangsrannsóknina. Hann fór aftur á Litla-Hrauni í hádeginu í fylgd tveggja fangavarða.
 
Nú bera rannsóknarlögreglumenn vitni fyrir dómi. Lögreglumaður í tæknideild lögreglunnar sagði að það hafi ekki verið að sjá í íbúðinni að þar hefðu átt sér einhverskonar átök. Það hafi einungis verið blóðslóð frá sófanum og út á svalir. Ljóst væri að Karli hafi verið veittir ákverkar með eggvopni.
 
„Ég veit ekki hvernig á að orða það, en ég mér finnst eins og að Karl hafi verið dreginn nánast lífvana út á svalir og þar hafi honum verið veittir stærsti hluti áverkana,“ sagði hann.
 
Í spurningu saksóknara kom fram að Karli hafi verið veittar 92 stungur. Lögreglumaðurinn sagði að sá sem hafi veitt Karli bana hafi dregið hann í átt að svölunum mjög fljótlega eftir fyrstu stunguna. Þá hafi einnig fundist spor eftir hund á blóðslóðinni í íbúðinni.
 
Friðrik Brynjar sagði að Karl hafi verið í gallabuxum þegar þeir sátu að sumbli. En í máli lögreglumannsins kom fram að engar gallabuxur hafi fundist í íbúðinni. Karl hafi verið í íþróttabuxum þegar hann fannst látinn á svölunum.

Tengdar fréttir

"Ég veit ég gerði þetta ekki“

Aðalmeðferð í manndrápsmáli stendur nú yfir í Héraðsdómi Austurlands á Egilsstöðum. Þar er Friðrik Brynjar Friðriksson ákærður fyrir að hafa orðið Karli Jónssyni að bana á Egilsstöðum þann 7. maí síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×