Tottenham var ekki í miklum vandræðum með að tryggja sér sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í kvöld en Gylfi Þór Sigurðsson og félagar unnu þá 3-0 sigur á Dinamo Tbilisi frá Georgíu. Tottenham vann samanlagt 8-0.
Jermain Defoe skoraði tvö mörk í fyrri hálfleiknum, það fyrra eftir sendingu frá Lewis Holtby en það síðara af stuttu færi eftir stoðsendingu frá Gylfa Þór Sigurðssyni.
Lewis Holtby skoraði síðan sjálfur þriðja markið á 69. mínútu með þrumuskoti eftir sendingu frá Tom Carroll.
Gylfi Þór kom aftur inn í byrjunarlið Tottenham í kvöld en hann var ekki í byrjunarliðinu um síðustu helgi.
Sigur Tottenham og sætið í riðlakeppninni var aldrei í hættu og nú er bara að sjá hvaða lið verða með Tottenham í riðli en það kemur í ljós þegar dregið er á morgun.
Fótbolti