Breska blaðið The Independent birtir í dag grein þar sem vísað er til þess hvernig breskir neytendur séu með kaupum á þjóðarrétti Bretlands, fisk og frönskum, óafvitandi að stuðla að veiðum á langreyði, hvalategund í útrýmingarhættu. Þar er fjallað um tengsl íslenska útgerðarfyrirtækisins HB Granda við Hval hf., en Kristján Loftsson, forstjóri Hvals, er einnig stjórnarformaður HB Granda og stór hluthafi í fyrirtækinu.
Í greininni segir að breskir aðgerðasinnar hafi hvatt fisksalann Warners Fish Merchants í Doncaster á Englandi til að hætta innflutningi á sjávarfangi frá HB Granda vegna tengsla fyrirtækisins við Hval. Þar segir einnig að HB Grandi og Hvalur hafi deilt húsnæði undir fiskvinnslu.
Brynjólfur Eyjólfsson, markaðsstjóri hjá HB Granda, sagði í samtali við fréttastofu nú fyrir hádegi að greinarhöfundur Independent fari með rangt mál þegar hann segir fyrirtækið hafa deilt húsnæði með Hval. „Við höfum ekkert með hvalveiðar að gera,“ sagði Brynjólfur.
HB Grandi: „Höfum ekkert með hvalveiðar að gera“
Haraldur Guðmundsson skrifar
