Fótbolti

Borgarstjóri Verona biður Balotelli um að haga sér vel

Mario Balotelli.
Mario Balotelli.
Fyrsta umferðin í ítölsku deildinni fer fram um helgina. Emil Hallfreðsson og félagar í Hellas Verona taka þá á móti Mario Balotelli og liðsfélögum hans í AC Milan.

Balotelli hefur mátt þola mikið kynþáttaníð á völlum Ítalíu og hann er búinn að ákveða hvernig hann ætlar að svara slíkum árásum - með mörkum.

Borgarstjórinn í Verona, Flavio Tosi, hefur varað Balotelli við því að haga sér almennilega. Hann hefur meiri áhyggjur af honum en áhorfendum.

"Bara ef Balotelli væri ekki alltaf svona ögrandi. Það er fullt af blökkumönnum að spila í deildinni sem draga ekki að sér neikvæða strauma. Balotelli stendur sig vel í því að espa fólk upp á móti sér," sagði Tosi.

Stuðningsmenn Verona hafa ekkert sérstaklega gott orð á sér og það má því búast við látum um helgina.

"Félagið hefur alltaf reynt að hafa hemil á áhorfendum. Það hefur gengið ágætlega fyrir utan þessa hefðbundnu þrjá til fjóra hálfvita sem alltaf haga sér illa," bætti Tosi við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×